30. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
Nr. 129/2007
Nú stendur yfir 30. alþjóðaráðstefna Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Genf, sem haldin er á fjögurra ára fresti. Ráðstefnan þetta árið er haldin undir yfirskriftinni ?Saman í þágu mannúðar".
Fastafulltrúi Íslands í Genf, Kristinn F. Árnason, flutti ávarp íslenskra stjórnvalda á ráðstefnunni. Lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi samvinnu aðila sem vinna að mannúðarmálum og greindi frá stofnun íslenskrar landsnefndar um mannúðarmál í samræmi við áheit 28. alþjóðaráðstefnunnar sem haldin var í Genf árið 2003. Önnur sameiginleg áheit stjórnvalda og Rauða kross Íslands frá 28. alþjóðaráðstefnunni voru um samvinnu á sviði mannréttindalaga, bæði hvað varðar framkvæmd og útbreiðslu, stuðning við alnæmisverkefni Rauða kross Íslands í suðurhluta Afríku og rannsókn á aðgengi jaðarhópa á Íslandi að heilbrigðisþjónustu. Öll þessi áheit voru uppfyllt á tímabilinu. Enn fremur gerði fastafulltrúi í ræðu sinni grein fyrir sameiginlegu áheiti íslenskra stjórnvalda og Rauða kross Íslands á yfirstandandi ráðstefnu. Áheitin koma til framkvæmda á árunum 2008-2011 og varða m.a. gerð sameiginlegrar yfirlýsingar utanríkisráðuneytisins og Rauða kross Íslands um samstarf fyrir árin 2008-2011, um útbreiðslu þekkingar á mannúðarlögum og stuðning við langtímastarf landsfélagsins á völdum svæðum. Að auki undirritaði fastafulltrúi Íslands í Genf sameiginlegt áheit Norðurlandanna (landsfélög og stjórnvöld) um hlutleysi í mannúðarstarfi.
Ávarp fastafulltrúa Íslands (á ensku) (PDF 52,9 Kb).
Frekari upplýsingar um alþjóðaráðstefnuna má finna á heimasíðu Alþjóðaráðs Rauða krossins http://www.icrc.org/eng