Ný útgáfa þjóðsöngsins
Forsætisráðuneytið gefur á morgun, 1. desember, út nýja útgáfu þjóðsöngsins. Jón Kristinn Cortez tónlistarkennari hefur haft veg og vanda af útgáfunni fyrir hönd ráðuneytisins.
Á þessu ári eru 50 ár liðin síðan forsætisráðuneytið lét prenta í hefti þjóðsöng Íslendinga ásamt útsetningum tónskáldsins, Sveinbjörns Sveinbjörnssonar við texta Matthíasar Jocumssonar á laginu við þjóðsönginn og upplýsingum um tilurð hans. Í nýju útgáfunni hefur raddsvið söngsins verið lækkað úr Es-dúr, sem hefur reynst erfitt fyrir aðra en þjálfaða söngvara, í C-dúr, svo hann hæfi betur almennum einradda söng.
Þjóðsöngurinn kemur nú út í þremur heftum; fyrir blandaða kóra, karlakóra og svo kvennakóra ásamt skólakórum SA sem nota sömu útsetningarnar. Í öllum þessum heftum eru upphaflegar útsetningar kóranna ásamt útsetningu fyrir einradda söng með píanóundirleik í C-dúr. Auk þess eru þar upplýsingar um höfunda lags og ljóðs, um tilurð söngsins og útdráttur úr fánalögum og sögu skjaldarmerkisins.
Í karlakóraheftinu er að finna nýja raddsetningu, þannig út garði gerða að hana má syngja samhliða útsetningu blandaðs kórs, auk þess karlaraddir blandaðs kórs, og í hefti kvennakóra eru einnig kvenraddir blandaðs kórs.
Heftin, útgefin í um 12 þúsund eintökum, verða send öllum kórum landsins svo og öllum skólum og kirkjum. Tónlistarskólum verða einnig send hefti fyrir sinfóníusveit og lúðrasveit þar sem í eru raddskrár stjórnanda ásamt öllum hljóðfæraröddum.
Einnig er viðhafnarútgáfa fyrir einsöng með píanóundirleik í legu fyrir háar og lágar raddir og útgáfa með öllum útsetningunum auk þýðinga, á fimm tungumálum, á þjóðsöngnum og tilurð hans auk sögu fánans og skjaldarmerkisins á ensku. Verður sú útgáfa til opinberra gjafa.
Fyrirtæki Jóns Kristins, tónverkaútgáfan Ísalög hefur unnið þessa útgáfu ráðuneytisins og mun sjá um dreifingu heftanna. Tónverkamiðstöðin hafði umsjón með vefútgáfu.
Allar útsetningarnar er hægt að sækja á heimasíðu forsætisráðuneytisins.
Reykjavík 30. nóvember 2007