Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2007 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra sækir ráðherrafund ÖSE í Madrid

Ingibjörg S. Gísladóttir, utanríkisráðherra og Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utan- ríkisráðherra, heilsar Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, í upphafi fundar.

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 130/2007

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, tekur þátt í 15. ráðherrafundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, sem hófst í gær í Madríd og lýkur í dag. Í ræðu utanríkisráðherra kom fram að ÖSE og forverar þess hefðu átt þátt í því að skapa varanlegan frið, hagsæld og lýðræði í Evrópu. Ítrekað var mikilvægi kosningaeftirlits á vegum lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu ÖSE (ODIHR) til að tryggja frjálsar og lýðræðislegar kosningar í aðildarríkjum samtakanna. Lýst var yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við starf ÖSE gegn mansali, sérstaklega kvenna og barna. Aðkoma kvenna að ákvarðanatöku á öllum stigum í ÖSE væri mikilvæg eins og í öðrum alþjóðastofnunum. Þá fjallaði ráðherra um málefni Kosovo, samninginn um hefðbundinn herafla í Evrópu (CFE) og fyrirhugað landamærasamstarf við Afganistan.

ÖSE er stærstu samtök í heiminum sem sinna svæðisbundnu öryggi með 56 þátttökuríki í Evrópu, Mið-Asíu og Norður-Ameríku. Samtökin sinna fyrirbyggjandi aðgerðum og uppbyggingu í kjölfar átaka. Spánn gegnir formennsku í ÖSE þetta ár og Finnland tekur við formennsku um áramótin 2008.

Í tengslum við fundinn átti utanríkisráðherra einnig tvíhliða fundi með starfssystkinum. Á fundum með Portúgal, sem nú gegnir formennsku í ESB, og Slóveníu, sem tekur við formennsku í ESB um áramót, en Evrópusambandið er einn aðila kvartettsins svonefnda ásamt Sameinuðu þjóðunum, Bandaríkjunum og Rússlandi. Þar talaði ráðherra máli Friðarnefndar palestínskra og ísraelskra kvenna (International Women´s Commission for a Just and Sustainable Palestinian-Israeli Peace), sem hún er heiðursfélagi í, og hvatti til þess að Friðarnefndin fengi formlega aðkomu að friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs á grundvelli ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 um konur, frið og öryggi.

Ræða utanríkisráðherra (á ensku - PDF 77.9 KB).



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta