Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setti alþjóðlega hestasýningu í Stokkhólmi 30. nóvember 2007
Alþjóðleg hestasýning í Stokkhólmi
Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var heiðursgestur og setti á föstudagskvöld alþjóðlega hestasýningu í Stokkhólmi í Svíþjóð sem haldin er árlega í íþróttahöllinni Globen. Að þessu sinni skipar íslenski hesturinn veglegan sess á sýningunni sem nú er haldin í fimmtánda sinn. Hún stendur yfir í þrjá daga og sækja tugir þúsunda gesta viðburðinn ár hvert. Íslenski hesturinn er vinsæll í Svíþjóð og er þriðja útbreiddasta hestakynið þar í landi.
Í setningarávarpi sínu gat ráðherra þess meðal annars hve mikilvægar slíkar sýningar væru fyrir hestamennsku á heimsvísu. Íslendingar væru bæði ánægðir og stoltir af sínum íslenska hesti og framgangi hans á erlendri grund. Ýta þyrfti enn frekar undir þann áhuga og það væri heiður að þeim sóma sem Íslendingum væri sýndur á þessari sýningu. Gott orð færi af henni og ánægjulegt að íslenska hestinum væri nú gert svo hátt undir höfði.
Ráðherra fór nokkrum orðum um gildi hestamennskunnar, hve drjúgur þáttur hún væri í náttúrupplifun margra og ögrandi og uppbyggjandi íþrótt. Til að íþróttin og hestamennskan vaxi og dafni þurfi öfluga hrossarækt. Þar standi Íslendingar vel að vígi. Íslenski hesturinn sé ekki eyland heldur þátttakandi í heildarframvindu hrossaræktar og hestamennsku um heim allan.
Ráðherra setti að lokum sýninguna með formlegum hætti
Reykjavík 2. desember 2007