Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja
Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar
um aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja
1. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja með því að draga úr tekjutengingum og skerðingum bóta í almannatryggingakerfinu. Fyrsta skref í þessa átt var stigið sl. sumar þegar tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga var að fullu afnumin. Áætlað er að árlegur kostnaður ríkssjóðs vegna þessa nemi 600-700 m.kr.
2. Ríkisstjórnin hefur þegar hafið undirbúning frekari aðgerða sem koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2008-2010.
3. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að eftirfarandi aðgerðir verði lögfestar á vorþingi:
-
Skerðing tryggingabóta vegna tekna maka verður afnumin frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 1.350 m.kr. árið 2008 og 1.800 m.kr. á heilu ári.
-
Gripið verður til sérstakra aðgerða til að draga úr of- og vangreiðslum tryggingabóta frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 345 m.kr. árið 2008 og 460 m.kr. á heilu ári.
-
Vasapeningar vistmanna á stofnunum verða hækkaðir úr 28.500 í 36.500 krónur á mánuði, eða um 30%, frá og með 1. apríl 2008. Áætlaður kostnaður er 35 m.kr. árið 2008 og 50 m.kr. á heilu ári.
-
Frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega á aldrinum 67-70 ára verður hækkað í allt að 100 þúsund krónur á mánuði frá 1. júlí 2008. Jafnframt mun ríkissjóður tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008. Aðgerðir sem skila öryrkjum sambærilegum ávinningi verða undirbúnar í tengslum við starf framkvæmdanefndar um örorkumat og starfsendurhæfingu. Áætlaður kostnaður er 1.000 m.kr. árið 2008 og 2.000 m.kr. á heilu ári.
-
Skerðing lífeyrisgreiðslna vegna innlausnar séreignasparnaðar verður afnumin frá 1. janúar 2009. Áætlaður kostnaður er um 30 m.kr.
4. Kostnaður vegna þessara aðgerða er talinn nema 2.700 m.kr. árið 2008 og 4.300 m.kr. á heilu ári. Samanlagt nemur því heildarkostnaður vegna ákvarðana núverandi ríkisstjórnar til að bæta kjör aldraðra og öryrkja um 5.000 m.kr. á ári. Í samræmi við þessa niðurstöðu mun ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegri hækkun á framlögum til þessara málaflokka við 3. umræðu um fjárlög fyrir árið 2008.
5. Unnið er að heildarendurskoðun almannatryggingakerfisins með það fyrir augum að frekari aðgerðir til að bæta kjör aldraðra og öryrkja komi til framkvæmda á árunum 2009 og 2010.
Reykjavík, 5. desember 2007