Hoppa yfir valmynd
7. desember 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsstefna Íslands í þriðja sæti

Samanburður Germanwatch 2008
Samanburður Germanwatch

Ísland er í þriðja sæti á lista þýsku félagasamtakanna Germanwatch þar sem borin er saman frammistaða ríkja í loftslagsmálum. Í samanburðinum er litið til loftslagsstefnu stjórnvalda, losun gróðurhúsalofttegunda og þróun í losun gróðurhúsalofttegunda. Skýrslan var kynnt á þingi aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem fram fer á Bali í Indónesíu. Ísland var í fjórtánda sæti á listanum fyrir ári síðan en hefur nú fært sig upp í þriðja sæti listans á eftir Svíum og Þjóðverjum. Góðan árangur Íslands að þessu sinni má að mati Germanwatch rekja til stefnumörkunar íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum þar sem m.a. er gert ráð fyrir að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50-75% fyrir miðja þessa öld.

Samkvæmt mati Germanwatch vegur stefnumörkun 20%, heildarlosun gróðurhúsalofttegunda 30% og þróun í losun 50%. Í könnuninni eru bornar saman aðgerðir 56 ríkja sem losa um 90% allra gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Að mati Germanwatch stenst þó ekkert ríki þær kröfur sem gera verður til að koma í veg fyrir hættulegar loftslagsbreytingar. Þetta er í þriðja skipti sem þessi samanburðarlisti hefur verið tekinn saman.

Hér má nálgast samanburðinn í heild sinni á heimasíðu Germanwatch.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta