Hoppa yfir valmynd
7. desember 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samkomulag um hlutverk og rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna

Frá undirritun samkomulags
Frá undirritun samkomulags

Í dag var undirritað samkomulag um rekstur Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna sem gildir til ársins 2012. Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna var sett á laggirnar sem tilraunaverkefni af félagsmálaráðuneyti í febrúar 1996. Í dag byggist rekstur Ráðgjafarstofunnar á samkomulagi félagsmálaráðuneytis, Íbúðalánasjóðs, Reykjavíkurborgar, Kaupþings banka hf., Glitnis hf., Landsbanka Íslands hf., Sambands íslenskra sparisjóða, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Þjóðkirkjunnar, Landssamtaka lífeyrissjóða, Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, Rauða kross Íslands og Kópavogsbæjar. Gildandi samkomulag rennur út 31. desember 2007. Er um að ræða sömu aðila og áður, en einn nýr bætist við, þ.e. Kreditkort hf. Fyrirtækið hefur verið styrktaraðili Ráðgjafarstofunnar til margra ára. Eru þeir því orðnir 16 aðilarnir sem standa að rekstri Ráðgjafarstofu.

Sérstaða og styrkur Ráðgjafarstofunnar liggur í góðu samstarfi og samvinnu margra ólíkra aðila sem starfa í samkeppnisumhverfi og að ólíkum hagsmunum. Á vettvangi Ráðgjafarstofunnar sameinast þessir sextán aðilar um að leggja fram fjármagn og krafta sína til að leysa fjárhagsvanda íslenskra fjölskyldna og stuðla að fræðslu varðandi fjármál.

Frá stofnun Ráðgjafarstofu hafa ríflega 7.500 fjölskyldur á Íslandi fengið aðstoð við að leysa úr fjárhagserfiðleikum sínum. Auk þess hafa nokkur þúsund manns fengið ráðgjöf símleiðis og í gegnum netið, en símaráðgjöf og netráðgjöf er veitt alla virka daga. Ráðgjafarstofan er einnig með heimasíðu (http://www.fjolskylda.is/fjarmal) og er þar miðlað ýmsum upplýsingum varðandi greiðsluerfiðleika og þjónustu Ráðgjafarstofunnar. Fræðsla og forvarnir í fjármálum hafa verið stór þáttur í starfsemi Ráðgjafarstofunnar. Félagsmálaráðherra leggur áherslu á að efla þann þátt frekar á næstu árum.

Vandamál viðskiptavina Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna eru eins misjöfn og þeir eru margir. Árlega er gerð greining á stöðu þeirra og það hefur sýnt sig undanfarin ár að stærsti einstaki hópur viðskiptavina er einstæðar mæður. Ráðgjafarstofan hefur mikilvægu samfélagslegu hlutverki að gegna varðandi velferð fjölskyldna í landinu og er til staðar þegar eitthvað bjátar á. Ánægjulegt er að svo margir og ólíkir aðilar skuli sameinast undir hatti Ráðgjafarstofunnar til að leysa vanda þeirra sem eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta