Starfshópur um eflingu Hólaskóla
Forsætisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Í því er m.a. kveðið á um breytingar á lögum um búnaðarfræðslu sem fela í sér að stjórnvaldslegt forræði gagnvart Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Hólaskóla færist frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis.
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 4. desember sl. tillögu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra um að skipa starfshóp til að koma með tillögur um framtíð og skipan skólahalds á Hólum í Hjaltadal og málefni Hólastaðar.
Starfshópinn skipa Guðmundur Árnason, ráðuneytisstjóri í menntamálaráðuneyti, sem jafnframt er formaður hópsins, og alþingismennirnir Sigurður Kári Kristjánsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðbjartur Hannesson og Anna Kristín Gunnarsdóttir.
Starfshópurinn skal setja fram tillögur er stuðla að frekari uppbyggingu og eflingu Hólaskóla, m.a. með hliðsjón af þeirri endurskipulagningu háskólastigsins sem fram hefur farið á undanförnum árum og væntanlegu frumvarpi um ríkisháskóla. Málefni Hólaskóla hafa um aldalangt skeið verið samofin almennu staðarhaldi á Hólum í Hjaltadal. Í tillögum sínum skal starfshópurinn miða við að tryggilega verði haldið um málefni Hólastaðar og Hólar haldi reisn sinni og stöðu sem miðstöð mennta, menningar og kirkjulegra málefna.
„Ég bind miklar vonir við starf hópsins. Við Hólaskóla hefur verið unnið ágætt starf á sviðum sem lítt er sinnt af öðrum stofnunum á háskólastigi, svo sem á sviði ferðamála, hestamennsku og fiskeldis. Það er mikill áhugi fyrir því að nýta sérstöðu og sérhæfingu skólans hvað varðar greinar sem tengjast íslenska hestinum og hestaíþróttinni og einnig felast margvísleg tækifæri í stuðningi og þjónustu við ferðageirann, ekki síst í dreifbýli. Markmiðið er að efla Hólaskóla til framtíðar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra.