Aðgerðir gegn mansali: Ánægja með skjót viðbrögð ríkisstjórnarinnar
Forsvarsmenn 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi gengu í morgun á fund félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttir. Erindið var að afhenda ráðherra blómvönd sem þakklætisvott fyrir skjót viðbrögð ríkisstjórnarinnar við áskorun um gerð áætlunar gegn mansali en á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn föstudag var samþykkt að tillögu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra að samin verði slík áætlun.
Við sama tækifæri voru félagsmálaráðherra afhentar undirskriftir tæplega 1.700 einstaklinga sem skora á stjórnvöld að grípa til aðgerða gegn mansali. Söfnun undirskriftanna var liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi sem stóð dagana 25. nóvember til 10. desember 2007. Með undirskrift er þess krafist að stjórnvöld beiti sér af alhug gegn mansali, meðal annars með samþykkt sérstakrar áætlunar þannig að tekið verði á þessu máli með samræmdum hætti.
Undirskriftunum fylgja ítarlegar tillögur þar sem gengið er út frá því að virt séu mannréttindi fórnarlambanna. Í tillögunum er meðal annars lagt til þolendum og vitnum verði veitt aukin réttarvernd. Sérhæft starfsfólk fái þjálfun í að þekkja fórnarlömb mansals. Sérstök áhersla er lögð á að þolendur mansals fái umsvifalausa vernd þegar ljóst er að um mansal er að ræða. Varað er við því að aðgerðir gegn mansali bitni á hópum sem eiga undir högg að sækja, til dæmis hælisleitendum og farandverkafólki.