Rammafjárlög og kostnaðarumsagnir
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 6. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í rammafjárlögum felst að fyrst eru sett heildarmarkmið um tekjur og gjöld ríkissjóðs og síðar í ferlinu er útgjöldum skipt á ráðuneyti og málaflokka. Verklag rammafjárlaga felur í sér að hver ráðherra er ábyrgur fyrir sínum útgjaldaramma og er einskonar fjármálaráðherra í sínum málaflokki.
Ráðuneytin forgangsraða verkefnum innan útgjaldarammans í fjárlagagerðinni við undirbúning fjárlagafrumvarps og fjárlaga. Ráðuneytin bera síðan hvert um sig ábyrgð á að framkvæmd fjárlaga verði innan rammans. Árangur hvers ráðuneytis má sjá í fjáraukalögum og niðurstöðu ríkisreiknings ár hvert. Í útgjaldaramma ráðuneyta felast allar breytingar á útgjöldum hvort sem þær stafa af samningum eða nýjum lögum, en tilteknir liðir sem ráðast af lýðfræðilegum og hagrænum forsendum eru áætlaðir, svo sem almannatryggingar, vextir og lífeyrisskuldbindingar.
Til að fylgja eftir verklagi rammafjárlaga samþykkir ríkisstjórnin eftir framlagningu fjárlagafrumvarps ár hvert vinnureglur um hvernig staðið skuli að undirbúningi 2. og 3. umræðu fjárlaga og hvernig eigi að mæta kostnaði við ný lagafrumvörp og ákvarðanir. Í samþykktinni nú í haust segir t.d.: ?Lagafrumvörpum og reglugerðum sem lögð eru fyrir ríkisstjórn og hafa í för með sér kostnaðarauka árið 2007 eða 2008 fylgi áætlun um hvernig þeim kostnaði skuli mætt innan útgjaldaramma viðkomandi ráðuneytis og langtímaáætlunar.?
Dæmi eru um að einstök ráðuneyti láti ekki fylgja frumvarpi sem lagt er fram í ríkisstjórn áætlun um það hvernig kostnaði, sem fyrir liggur að fylgja muni lögfestingu lagafrumvarps verði mætt innan útgjaldarammans, en ríkisstjórnin samþykki allt að einu að frumvarpið verði lagt fram. Hefur fjármálaráðuneytið nú tekið upp það verklag að láta það koma fram í kostnaðarumsögnum með viðkomandi frumvörpum að ekki sé í fjárlagafrumvarpi eða fjárlögum gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af kostnaði sem hlýst af frumvarpinu og ekki liggi fyrir hvernig útgjöldum vegna viðkomandi frumvarps verði mætt.
Með þessu er athygli vakin á því að eftir sé að leysa það hvernig kostnaði sem lögfesting viðkomandi frumvarps muni hafa í för með sér verði mætt.