Hoppa yfir valmynd
11. desember 2007 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Orðsending til skólastjóra um námsgagnasjóð

Til skólastjóra grunnskóla

U M B U R Ð A R B R É F

Ágæti skólastjóri,

Ég vil vekja athygli þína á því að á grundvelli laga um námsgögn nr. 71/2007, var stofnaður námsgagnasjóður, sem hefur það hlutverk að leggja grunnskólum til fé til námsgagnakaupa í því augnamiði að tryggja val þeirra um námsgögn.

Framlag til námsgagnasjóðs er ákveðið í fjárlögum ár hvert og var 100 milljónum króna varið til sjóðsins á þessu ári. Skipuð hefur verið þriggja manna stjórn í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga um námsgögn, en í henni eiga sæti Hanna Hjartardóttir, skv. tilnefningu Kennarasambands Íslands, Eiríkur Hermannsson skv. tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir sem skipuð er án tilnefningar og er hún jafnframt formaður stjórnar sjóðsins.

Stjórn sjóðsins ákveður skiptingu fjármuna milli grunnskóla til námsgagnakaupa á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda skráðra nemenda í hverjum grunnskóla á síðastliðnu skólaári. Greiðsla fyrir hvern skóla er innt af hendi til rekstraraðila grunnskóla í maímánuði ár hvert. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í reglugerð um námsgagnasjóð, nr. 1111/2007, fór fyrsta úthlutun úr námsgagnasjóði fram í nóvembermánuði á þessu ári á grundvelli upplýsinga frá Hagstofu Íslands um fjölda skráðra nemenda í hverjum skóla á síðastliðnu skólaári. Ræðst hlutdeild hvers skóla af nemendafjölda en heimilt er að ívilna fámennari skólum. Í því felst að skólar með allt að 50 nemendur fá 20% hærri úthlutun, skólar með 51-100 nemendur fá 10% hærri úthlutun og skólar með 101-150 nemendur fá 5% hærri úthlutun. Í skjali sem fylgir þessu bréfi kemur fram upphæð hvers skóla fyrir sig sem greidd er rekstraraðila grunnskóla.

Ráðstöfun á þessu fé er einskorðuð við kaup á námsgögnum frá lögaðilum og skulu námsgögnin samrýmast markmiðum aðalnámskrár. Óheimilt er að verja fjármunum úr námsgagnasjóði til búnaðar- og tækjakaupa. Grunnskólar skulu láta sjóðstjórn í té skilagrein á rafrænu formi um ráðstöfun úthlutunar eigi síðar en 30. apríl ár hvert. Eingöngu þeir skólar sem skilað hafa skilagrein koma til álita við úthlutun næsta árs.

Ég vil hvetja þig sem skólastjórnanda að kynna þér vel reglur námsgagnasjóðs og nýta þér þá möguleika sem hann býður upp á til að tryggja nemendum fjölbreyttari og betri námsgögn.


Menntamálaráðuneyti, 4. desember 2007.


Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta