Breytingar hjá Hagstofu Íslands um áramót
Hinn 1. janúar 2008 verður Hagstofa Íslands lögð niður sem ráðuneyti. Þá taka gildi ný lög um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð sem Alþingi samþykkti 10. desember sl. Samkvæmt þeim verður Hagstofan sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra. Í 1. gr. laganna segir að Hagstofan sé miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hafi forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar svo og um samskipti við alþjóðastofnanir á þessu sviði. Í tengslum við þessar breytingar hefur Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri ákveðið að láta af störfum. Hallgrímur tók við starfi hagstofustjóra í ársbyrjun 1985 og hefur því gegnt starfinu í 23 ár, lengst allra núverandi hagstofustjóra í heiminum. Þennan tíma hefur hann haft forystu um þróun hagskýrslugerðar hér á landi og uppbyggingu Hagstofunnar auk þess sem hann hefur tekið virkan þátt í stefnumótun í opinberri hagskýrslugerð á alþjóðavettvangi. Starf hagstofustjóra verður auglýst laust til umsóknar sunnudaginn 16. desember og er umsóknarfrestur til 10. janúar 2008. Núverandi staðgengill hagstofustjóra, Magnús S. Magnússon, verður settur til að gegna starfi hagstofustjóra þar til nýr hagstofustjóri hefur verið skipaður.
Reykjavík 14. desember 2007