Tvísköttunarsamningur við Indland
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 13. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Undirritaður hefur verið samningur milli Íslands og Indlands til að komast hjá tvísköttun og nær samningurinn til tekjuskatta.
Helstu efnisatriði samningsins eru þau að samið var um 10% afdráttarskatt af arði, vöxtum og þóknunum. Þá er í samningnum sérstakt ákvæði um prófessora, kennara og rannsóknarmenn sem felur það í sér að þeir eru undanþegnir tekjuskatti í tvö ár komi þeir til starfa í hinu samningsríkinu að uppfylltum nánar tilgreinum skilyrðum. Samkvæmt samningnum er frádráttaraðferð (credit method) beitt í því skyni að koma í veg fyrir tvísköttun.
Í samningunum er tekið upp sérstakt takmarkandi ákvæði (Limitations On Benefits) sem ætlað er að tryggja að einungis þeir skattaðilar sem uppfylla skilyrði þeirra njóti ívilnana samningsins. Ákvæðið tekur ekki til einstaklinga eða skráðra félaga. Í stuttu máli eru helstu efnisatriði ákvæðisins að önnur félög en þau sem skráð eru í viðurkenndri kauphöll falla undir samninginn ef þau eru að meiri hluta í eigu aðila sem búsettir eru í samningsríkjunum. Almennt skilyrði fyrir framangreindu er að minna en 50% af brúttó tekjum sé greitt úr landi nema um sé að ræða kaup á þjónustu eða vörum eða um að ræða lánaviðskipti við útibú erlends banka. Þessar takmarkanir gilda þó ekki ef félag er með virka starfsemi í landinu og tekjurnar tengjast þeirri starfsemi. Samningsríkin geta komið sér saman um að aðili frá hinu landinu, sem ekki uppfyllir framangreind skilyrði, njóti ákvæða samningsins ef markmið hans er ekki að ná sér í ívilnanir. Að lokum er í ákvæðinu tekið fram að ef starfsemi er eingöngu sett upp til að nýta sér ívilnanir samningsins þá falli sá aðili ekki undir samninginn.
Jafnframt er samið um upplýsingaskipti á milli landanna varðandi þá skatta sem samningurinn nær til og er ákvæðið efnislega samhljóða endurskoðaðri 26. grein OECD módelsins frá 2005. Í þeirri endurskoðun var bætt við nýrri 4. mgr. sem skyldar samningsaðila til að láta í té upplýsingar sé þess óskað þótt sá samningsaðili sem afhendir upplýsingarnar þurfi ekki sjálfur á þeim að halda í skattalegum tilgangi. Einnig var bætt við nýrri 5. mgr. en samkvæmt henni getur samningsaðili ekki neitað að afhenda upplýsingar eingöngu vegna þess að þær séu í vörslu banka eða annarra fjármálastofnana. Síðast en ekki síst var samið um aðstoð við innheimtu skatta en hingað til hefur það heyrt til undantekninga að slíkt ákvæði sé í þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert.
Á næstu mánuðum munu stjórnvöld vinna að fullgildingu samningsins í báðum samningsríkjum. Vonast er til að samningurinn geti komið til framkvæmda 1. janúar 2009.
Tvísköttunarsamningur Íslands og Indlands (PDF 124 KB)