Útboð í lokaáfanga við Grímseyjarferju
Útboðsgögn fyrir síðustu verkefnin við nýja Grímseyjarferju hafa verið send fjórum skipasmíðastöðvum. Opna á tilboðin 4. janúar.
Grímseyjarferjunni Sæfara var reynslusiglt fyrir helgina og gekk siglingin vel. Fátt kom á óvart í siglingunni og næsti áfangi er að bjóða út síðustu verkþættina við ýmsan frágang. Fjórar stöðvar taka þátt í útboði: Skipasmíðastöð Njarðvíkur, Slippurinn á Akureyri, Stálsmiðjan og Vélsmiðja Orms og Víglundar. Stöðvarnar skulu tilgreina upphæð og verktíma.
Hefja á verkið í síðasta lagi 15. janúar. Gera má ráð fyrir að Sæfari geti hafið siglingar á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Frá reynslusiglingu Grímseyjarferjunnar Sæfara í síðustu viku. | |||