Áskoranir og áherslur Vísinda- og tækniráðs
Á fundi Vísinda- og tækniráðs sem haldinn var í Ráðherrabústaðnum í dag, þriðjudag, voru samþykktar áskoranir og áherslur í vísindum, tækniþróun og nýsköpun á næstu árum.
Vísinda- og tækniráð horfir til þeirra sviða þar sem Íslendingar hafa burði til að ná sérstökum árangri á alþjóðlegum vettvangi og þar sem starfsemi fyrirtækja, háskóla, rannsóknastofnana, opinberra aðila og einstakra þjóðfélagshópa getur fléttast saman og skilað þjóðinni enn meiri ávinningi.
Vísinda- og tækniráð sér nú sérstök tækifæri í að:
- efla rannsóknir á menntun og kennslu til að þróa menntakerfið svo það standi betur undir sívaxandi kröfum um þekkingu, virkni, sköpunarkraft, frumkvæði og sveigjanleika;
- gera nýsköpunarstarfsemi að álitlegum fjárfestingarkosti og hvetja innlenda og erlenda fjárfesta og samkeppnissjóði til að veita sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum öflugan stuðning;
- efla rannsóknir á íslenskum menningararfi, handrita- og bókmenningu, tungu og samtímamenningu, samhliða þeirri áherslu sem nú er lögð á útrás og alþjóðlega ímynd landsins;
- efla rannsóknir sem beinast að árangursríkum forvörnum og heilsueflingu, bættri heilsuvernd, endurhæfingu og nýjungum í heilbrigðisþjónustu, lyfjatækni og þróun matvæla;
- efla rannsóknir á auðlindum lands og sjávar og hvernig nýta megi náttúrulegar auðlindir betur með sjálfbærum hætti;
- efla rannsóknir á líklegum og afdrifaríkum breytingum lofts, láðs og lagar með öflugri þátttöku atvinnulífsins og fræðimanna úr fjölmörgum greinum;
- efla rannsóknir sem snúa að innviðum íslensks samfélags, sérstöðu þess og séreinkennum;
- efla skapandi greinar þar sem nýsköpun, öflug upplýsingatækni, menningarstarfsemi, afþreying og fjárfestar mætast og ný starfsemi vex fram.
Formaður ráðsins er Geir H. Haarde forsætisráðherra en auk hans sitja í ráðinu menntamálaráðherra, iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra, ásamt 16 einstaklingum úr atvinnulífi, háskólum og rannsóknarstofnunum. Á vegum ráðsins starfa tvær nefndir sem í eiga sæti ráðsmenn, aðrir en ráðherrar. Vísindanefnd starfar undir formennsku Guðrúnar Nordal prófessors og tækninefnd undir formennsku Hallgríms Jónassonar forstjóra.
Nánari upplýsingar um hlutverk og starfsemi Vísinda- og tækniráðs er að finna á vefslóðinni www.vt.is.
Hér má nálgast ályktun Vísinda- og tækniráðs í heild sinni.