Stefnt að útboði sérleyfa til olíuleitar við Ísland í janúar 2009
Fréttatilkynning.
Ríkisstjórn Íslands samþykkti í morgun, 18. desember 2007, tillögu iðnaðarráðherra um að stefnt verði að útboði sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu, norðaustur af Íslandi. Miðað er við að hægt verði að bjóða leyfin út 15. janúar 2009. Engin trygging er fyrir því að gas eða olía finnst á svæðinu.
Niðurstöður jarðeðlisfræðilegra mælinga á svæðinu þykja gefa vísbendingar um að þar geti verið að finna bæði olíu og gas í vinnanlegu magni. Jarðfræðilega er svæðið hluti af samfelldu setlagasvæði sem upphaflega tengdi saman meginlandsskildi Noregs og Grænlands og þar má finna þykk setlög. Víða hefur fundist olía og gas á nálægum og jarðfræðilega skyldum svæðum. Forsenda þess að nú er hægt að leita þessara auðlinda á Drekasvæðinu er sú mikla þróun sem orðið hefur í bor- og vinnslutækni á undanförnum árum, ásamt nýlegri reynslu af olíu- og gasvinnslu á miklu hafdýpi á norðlægum slóðum. Frekari rannsóknir, þar á meðal rannsóknarboranir, þarf hins vegar til að sannreyna hvort olíu og gas sé í reynd að finna á Drekasvæðinu.
Samþykkt ríkisstjórnarinnar byggist á niðurstöðum ítarlegrar undirbúningsskýrslu sem unnin hefur verið um málið. Í skýrslunni, sem iðnaðarráðuneytið gaf út í mars 2007, var sett fram tillaga að áætlun um olíuleit á Drekasvæðinu þar sem m.a. er skoðuð hugsanleg umhverfisáhrif þeirrar áætlunar, í samræmi við lög nr. 105/2006, um umhverfismat áætlana.
Skýrslan var kynnt á fimm opnum fundum og send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar, auk þess sem almenningi gafst kostur á því að senda inn athugasemdir. Alls bárust 16 umsagnir og voru þær almennt jákvæðar. Í framhaldi var ákveðið að ráðast í frekari rannsóknir á lífríki sjávar, veðurfari og sjólagi á Drekasvæðinu. Nauðsynlegum rannsóknum verður lokið áður en til rannsóknar- og vinnsluborana kemur.
Ríkisstjórnin stefnir að því að stuðla að skynsamlegri nýtingu hugsanlegra olíu- og gasauðlinda á Drekasvæðinu í sem mestri sátt við umhverfið og samfélagið, þjóðinni til hagsbóta. Engin trygging er fyrir því að olía og gas finnist í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu en ljóst er að verulegur olíu- og gasfundur gæti haft kröftug efnahagsleg áhrif á íslenskan þjóðarbúskap. Með því væri fleiri stoðum skotið undir efnahag og sjálfstæði þjóðarinnar, auk þess sem olíuvinnsla myndi efla byggð á svæðum sem næst liggja Drekasvæðinu.
Gerðar verða ítrustu kröfur um öryggi og vinnuvernd, sem og umhverfisvernd og mengunarvarnir. Á næstu mánuðum verður unnið að því að endurskoða viðeigandi löggjöf og útfæra leyfisskilmála og skattalegt umhverfi vegna þessarar starfsemi.
Ítarefni með fréttatilkynningu
Ráðstefna um olíuleit við Ísland, á Hilton Nordica Hotel, 4.-5. september 2008.
Skýrslur og annað efni
Skýrsla um Drekasvæði Staðarval og aðstöðusköpun
Viðauki A Viðauki B Viðauki C Viðauki D Viðauki E
Skýrsla um undirbúning olíuleitar á Drekasvæðinu Mars 2007.
Yfirlit um jarðfræði Jan Mayejn-svæðisins og hugsanlegar kolvetnislindir. Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) / Bjarni Richter og Steinar Þór Guðlaugsson, 2007
Greinargerð um veðurfar og hafís á Jan Mayen-hryggnum. Veðurstofa Íslands / Ásdís Auðunsdóttir, Guðmundur Hafsteinsson og Trausti Jónsson, 2007.
Öldufar við olíuleit á Drekasvæðinu. Siglingastofnun / Gísli Viggósson, Ingunn Erna Jónsdóttir og Eysteinn Már Sigurðsson, 2007.
Sjór, lífríki og fiskistofnar á olíuleitarsvæðinu við Jan Mayen. Hafrannsóknastofnunin / ritstjóri Karl Gunnarsson, 2007
Fuglalíf á fyrirhuguðum olíuleitarsvæðum á Jan Mayen hryggnum. Náttúrufræðistofnun Íslands / Ævar Petersen, 2007.
Greinargerð um áhrif leitar, rannsókna og vinnslu olíu á starfsemi Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæsla Íslands / Dagmar Sigurðardóttir, 2007
Yfirlit um lög og reglugerðir sem tengjast leit, rannsóknum og vinnslu olíu. Greinargerð frá ráðuneytum sem tengjast olíuleitarverkefninu.
Preparations for awarding licenses for exploration and production of hydrocarbons. Basic premises, possible development paths and scenarios. (Undirbúningur olíuleitar. Grunnforsendur, hugsanleg þróun og sviðsmyndir.) Skýrsla unnin fyrir iðnaðarráðuneytið af Sagex AS, 2006.
Samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen.
Lög nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.
Lög um breytingu á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi
Skattalög vegna kolvetnisvinnslu
Reglur nr. 553/2001, um veitingu leyfa til leitar að kolvetni.
English homepage / Upplýsingar á ensku