1.400 milljón króna aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2007
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar frá 7. desember sl. um úthlutanir framlaga á grundvelli 3., 4. og 5. gr. reglna nr. 884/2007 sem ráðherra setti í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga um ráðstöfun 1.400 m.kr. aukaframlags til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á árinu 2007.
Framlaginu er ætlað að jafna aðstöðumun sveitarfélaga sem talin eru í mestri þörf fyrir sérstakt viðbótarframlag vegna þróunar í rekstrarumhverfi þeirra og erfiðra ytri aðstæðna.
Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessum reglum ef heimild sveitarfélags til útsvarsálagningar fyrir tekjuárið 2007 er fullnýtt af sveitarstjórn.
Á grundvelli 2. gr. reglnanna komu 350 m.kr. til greiðslu 12. október sl. vegna íbúafækkunar í sveitarfélögum árin 2002–2006.
Framlag vegna þróunar útsvarsstofns (3. gr.)
Tillaga er gerð um úthlutun 350 m.kr. aukaframlags til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns milli áranna 2001–2006 er lægri en heildarhækkun útsvarsstofns allra sveitarfélaga fyrir sama tímabil. Einungis kemur til úthlutunar framlags samkvæmt þessari grein hafi sveitarfélag ekki fylgt íbúaþróun Reykjavíkurborgar á sama tímabili. Um er að ræða greiðslu á eftirstöðvum að fjárhæð 175 m.kr. en 175 m.kr. komu til greiðslu 12. október sl.
Framlag vegna íbúaþróunar (4. gr.)
Tillaga er gerð um úthlutun 350 m.kr. aukaframlags til sveitarfélaga sem ekki hafa fylgt þróun Reykjavíkurborgar hvað íbúafjölda varðar árin 2002–2006.
Framlag til sameinaðra sveitarfélaga (5. gr.)
Tillaga er gerð um úthlutun 275 m.kr. aukaframlags til sveitarfélaga þar sem hlutfallsleg þróun útsvarsstofns er með sama hætti og skv. 3. gr. og íbúaþróun hefur verið með sama hætti og skv. 4. gr. Auk þess er gerð tillaga um úthlutun 75 m.kr. aukaframlags til sveitarfélaga þar sem tekið er tillit til sérstakrar útgjaldaþarfar sveitarfélaga sem halda þurfa úti þjónustu á fleiri en einum þéttbýlisstað innan sveitarfélags. Við útreikning framlaganna koma til greina sveitarfélög sem hafa sameinast frá og með árinu 1984.
Stefnt er að greiðslu aukaframlags að fjárhæð 875 m.kr. fyrir jól.
Endanlegt aukaframlag 2007 (PDF, 18KB)