Samningur við Háskólann á Akureyri
Samningur við Háskólann á Akureyri
Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skrifaði í gær undir samning við Háskólann á Akureyri vegna gagnaveitu um haf og sjávarútveg. Samkvæmt samningnum tekur Háskólinn á Akureyri að sér að ritstýra verkefni um gerð gagnaveitu á veraldarvefnum. Markmið gagnaveitunnar er að gera aðgengilegar á einum stað upplýsingar um vistkerfi og náttúru hafsins við Ísland, sjálfbæra nýtingu auðlinda þess, efnainnihald og heilnæmi sjávarfangs sem og hagrænar upplýsingar um sjávarútveg Íslands og tengsl þeirra við þjóðhagsstærðir.
Tæknileg gerð gagnveitunnar er unnin á vegum Forsvars ehf. á Hvammstanga. Vinnu við grunngerð hennar er að mestu lokið en vinna við yfirfærslu gagna, tengingar og efnisöflun hefst í upphafi nýs árs og er stefnt að því að gagnaveitan verði opnuð undir lok árs 2008.
Ráðherra væntir mikils af samstarfinu, bæði við Háskólann á Akureyri og Forsvar ehf. um gerð gagnaveitunnar. Ljóst er að verkefnið er allumfangsmikið og krefjandi en um leið afar áhugavert, enda er því ætlað að styrkja sjávarútveg á Íslandi enn frekar til framtíðar.
Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Jón Ingi Benediktsson forstöðumaður Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri skrifa undir samninginn.
Sjávarútvegsráðuneytinu 20. desember 2007