Hoppa yfir valmynd
20. desember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda og persónuafsláttur fyrir árið 2008

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 28/2007

Staðgreiðsluhlutfall, persónuafsláttur fyrir árið 2008 og útsvarshlutfall sveitarfélaga 2007-2008.

1. Staðgreiðsluhlutfall

Lögum samkvæmt ákveður og auglýsir fjármálaráðuneytið árlega staðgreiðsluhlutfall opinberra gjalda fyrir komandi ár, en það er samtala af tekjuskatthlutfalli samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og meðalhlutfalli útsvars samkvæmt ákvörðunum sveitarfélaga á grundvelli laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Á árinu 2008 verður tekjuskatthlutfallið 22,75%, eða óbreytt frá yfirstandandi ári. Meðalútsvar á árinu 2008 samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga verður 12,97%, sem er það sama og á árinu 2007. Staðgreiðsluhlutfall ársins 2008 verður samkvæmt því 35,72% og helst óbreytt milli ára.

Sveitarfélögin geta ákveðið útsvar á bilinu 11,24% til 13,03%. Af 79 sveitarfélögum leggja 64 þeirra á hámarksútsvar en 3 sveitarfélög leggja á lágmarksútsvar. Tvö sveitarfélög hafa ákveðið að lækka útsvarshlutfallið frá því sem var á þessu ári, en fjögur munu hækka það.

2. Persónuafsláttur

Í lok árs 2006 var samþykkt sú breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, að persónuafsláttur skuli endurskoðaður árlega, í fyrsta sinn frá 1. janúar 2008. Samkvæmt A-lið 67. gr. laganna skal fjárhæð persónuafsláttar í upphafi hvers árs breytast í takt við breytingu á vísitölu neysluverðs yfir næstliðið tólf mánaða tímabil.

Nú liggur fyrir mæling Hagstofu Íslands á vísitölu neysluverðs fyrir desembermánuð 2007 sem reyndist vera 281,8 stig samanborið við 266,2 stig í desember 2006. Hækkunin milli ára nemur samkvæmt því 5,86%. Það þýðir að á árinu 2008 verður persónuafsláttur hvers einstaklings 408.409 krónur, eða 34.034 krónur að meðaltali á mánuði.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta