Hoppa yfir valmynd
24. desember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Jóli komaÞessar hendingar er að finna í inngangsljóðinu í kveri Jóhannesar úr Kötlum, Jólin koma, sem kom út í fyrsta sinn árið 1932, fyrir 75 árum síðan.

Í því er að finna mjög mörg af vinsælustu jólakvæðum þjóðarinnar sem hafa lifað með henni síðan enda hefur það verið gefið út 24 sinnum. Einhverjum þætti það heldur þunnur þrettándi að fá einungis kerti og spil í jólagjöf í dag og skáldið gefur í skyn að flestir hafi mátt vænta einhvers meira.

Að sjálfsögðu voru efni manna almennt minni í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar en nú á dögum. Skáldið var kennari vestur í Dölum þegar kverið kom út en það kann engu að síður að hafa haft áhrif á ljóðið að í auglýsingu í Morgunblaðinu í desemberbyrjun kemur fram að innflutningsbann hafði verið á leikföngum allt árið og því hefur ef til vill verið minna vöruúrval en annars.

Í blöðum fyrir jólin 1932 er ekki að finna margar auglýsingar kaupmanna um leikföng eða jólagjafir barna utan spil. Kerti voru auglýst en að mestu til að skreyta jólatré. Í einni auglýsingu kemur fram að spil kosti 45 aura en í öðrum auglýsingum kosta þau 6 og 10 krónur en að sjálfsögðu hafa spil verið misjafnlega dýr þá eins og nú. Á þessum tíma voru laun verkamanns í Reykjavík 1 króna og 36 aurar og þau laun héldust óbreytt þegar kreppan mikla var í hámarki frá 1931 til 1936. Það var því hægt að kaupa þrenn spil af ódýrari gerðinni fyrir tímalaunin.

Síðan þá hefur margt breyst meðal annars verðlag og kaupgjald. Verðbreytingar hétu þá dýrtíð og urðu ekki að verðbólgu fyrr en löngu síðar. Að mati Hagstofunnar hefur almennt neysluverð (án húsnæðis) hækkað 26 þúsundfalt frá árinu 1932. Verkamannalaun hafa hækkað að minnsta kosti 55 þúsund falt frá sama tíma og því hefur kaupmáttur lægstu launa meira en tvöfaldast en langmestur hluti þeirrar aukningar hefur orðið til á allra síðustu árum en fram til 1996 hafði kaupmátturinn aðeins aukist um 50%.

Samsetning neyslunnar hefur breyst mikið. Að nauðsynjavöru undanskilinni var árið 1932 ekki til nema örlítið brot þess sem neytt er í dag. Bæði ódýr og dýr spil eru eitthvað dýrari nú en þau voru þá. Í dag er ekki hægt að fá nema rúmlega tvenn spil fyrir lágmarkstímalaunin. Jólaeplin eru aftur á móti miklu ódýrari en þau voru árið 1932 enda eru þau ekki lengur munaðarvara. Til að vinna fyrir þeim í dag þarf einungis 1/10 af þeim tíma sem þurfti þá. Jólin koma, sem er hægt að fá nú eins og þá, kostaði 1,50 kr. árið 1932 en kostar 747 krónur í dag. Það er tæplega 50 þúsundföld hækkun og hefur um það bil haldið í við verkamannalaunin enda hefur innihaldið haldið gildi sínu fullkomlega og vaxið ef eitthvað er.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta