Skattaumsýsla stórfyrirtækja
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 20. desember 2007 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp um breytingar á skattaumsýslu stórra og umsvifamikilla fyrirtækja, en þeim hefur fjölgað mjög hratt hérlendis á örfáum árum.
Þar á vaxandi útrás íslenskra fyrirtækja stóran hlut að máli. Við slíkar aðstæður verða viðskipti oft afar flókin enda lagalegt umhverfi séð frá sjónarhóli skattareglna sem annarra, oftar en ekki ólíkt milli landa, bæði að uppbyggingu og eðli. Þetta breytta umhverfi kallar á aukna sérfræðiþekkingu á öllum sviðum og meiri sérhæfingu í allri umsýslu gagnvart þessum aðilum.
Þessi þróun er ekki séríslensk heldur er hún alþjóðlegt fyrirbæri sem löndin í kringum okkur hafa verið að bregðast við með ýmsu móti. Flest þeirra fara þá leið að setja á fót sérstakar stjórnsýslueiningar í skattkerfinu sem annast alla skattalega umsýslu og þjónustu við þessa aðila. Það á til dæmis við um hin Norðurlöndin og virðist þetta fyrirkomulag hafa gefið góða raun.
Ýmsir mælikvarðar hafa verið notaðir við mat á því hvaða fyrirtæki teljist vera stórfyrirtæki. Algengast er þó að það mat byggist á umsvifum þeirra í formi veltu og/eða eigna. Í frumvarpinu er lagt til að þessum fyrirtækjum verði skipað undir einn hatt á grundvelli viðmiðana um tekjur og eignir af tiltekinni stærðargráðu. Þannig teljist félag stórfyrirtæki ef rekstrartekjur þess að meðtöldum fjármagnstekjum skv. ársreikningi eru 10 milljarðar króna eða meiri, eða heildareignir þess skv. ársreikningi 5 milljarðar króna eða meiri. Aðeins annað þessara skilyrða þarf að vera uppfyllt til að félag teljist stórfyrirtæki.
Í dag dreifast umrædd fyrirtæki á nær öll skattumdæmi landsins, sem sum hver hafa ekki yfir að ráða því sérhæfða starfsfólki sem til þarf til að þjónusta slíka aðila. Þetta hefur í einhverjum tilvikum leitt til þess að álitamál þeim tengd hafa ekki fengið úrlausn sem skyldi né heldur hafa viðkomandi fyrirtæki fengið þá þjónustu sem eðlilegt er að skattkerfið veiti. Verði frumvarpið að lögum verður forræðið varðandi skattaleg úrlausnarefni þeirra fyrirtækja á hendi eins skattstjóra, sem hefur hefðbundið framkvæmdar- og úrskurðarvald í málum sem þeim tengjast óháð því hvar á landinu þau hafa skráð heimili. Með því fyrirkomulagi skapast möguleikar á að tryggja að skattlagning sambærilegra eða tengdra fyrirtækja sem hafa mikil umsvif verði samhæfðari og skilvirkari en verið hefur.
Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum lögaðila fyrir árið 2007 vegna rekstrar ársins 2006 falla 249 fyrirtæki undir ofangreindar viðmiðanir. Þar af eru 170 fyrirtæki, eða 70% af heild, með skattalegt heimilisfesti í Reykjavík þó að innan við helmingur af heildarfjölda lögaðila sé skráður þar. Jafnframt sýna upplýsingar úr skattframtölum að stórfyrirtækin í Reykjavík eru margfalt umfangsmeiri en flest þeirra sem eru annars staðar, bæði er varðar tekjur og eignir. Á ljósi þessa er talið rökrétt, eins og fram kemur í tillögu frumvarpsins, að skattaumsýsla stórfyrirtækja, sem rekin verður sem sérhæfð stjórnsýslueining, falli undir Reykjavíkurumdæmi og verði þar með á forræði skattstjórans í Reykjavík.