Skipun starfshóps til að fjalla um þjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra hefur lagt áherslu á að langveikum börnum og fjölskyldum þeirra verði veitt aukið aðgengi að félagslegri þjónustu sem og að sálfélagslegur stuðningur við fjölskyldur þessara barna verði efldur. Tilgangurinn er að veita langveikum börnum umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri aðstoð við fjölskyldur þeirra svo unnt sé að búa börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði þrátt fyrir veikindin. Mikilvægt er að auðvelda fjölskyldum langveikra barna að lifa sem eðlilegustu lífi sem og að efla þroska barnanna í samræmi við eðli og þarfir hvers þeirra og hlúa að þeim svo þau fái notið bernsku sinnar. Er þetta í samræmi við markmið þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna sem Alþingi samþykkti í júní 2007.
Til að fylgja þessu eftir hefur ráðherra skipað sérstakan starfshóp sem hefur það hlutverk að fara yfir þau þjónustuúrræði sem þegar eru fyrir hendi innan ólíkra þjónustukerfa, svo sem heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og félaglega kerfisins, og meta hvar ástæða er til að virkja þá þjónustu enn frekar en nú er og á hvaða sviðum er mikilvægt að taka upp ný úrræði í því skyni að unnt verði að veita sem heildstæðasta þjónustu við langveik börn og fjölskyldur þeirra. Starfshópnum er ætlað að skila tillögum til ráðherra eigi síðar en 15. febrúar nk.
Í starfshópnum eiga sæti:
- Ingibjörg Georgsdóttir formaður, skipuð án tilnefningar,
- Ellý Alda Þorsteinsdóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
- Guðni Olgeirsson, tiln. af menntamálaráðuneyti,
- Margrét Björnsdóttir, tiln. af heilbrigðisráðuneyti,
- Andrés Ragnarsson, tiln. af Umhyggju, félagi til stuðnings langveikum börnum.