Nefndir til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf á svæðum með lítinn hagvöxt
Forsætisráðherra hefur ákveðið með samþykki ríkisstjórnarinnar að skipa tvær nefndir til að fjalla um leiðir til að styrkja atvinnulíf og samfélag á svæðum þar sem hagvöxtur er lítill. Annarri nefndinni er ætlað að fjalla um Norðurland vestra og skila forsætisráðherra tillögum eigi síðar en í lok mars 2008. Hinni nefndinni er ætlað að fjalla um fámenn byggðarlög á Norðurlandi eystra og Austurlandi sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti og skila forsætisráðherra tillögum eigi síðar en 1. maí 2008. Nefndunum er meðal annars ætlað að gera tillögur um mögulega styrkingu menntunar og rannsókna, uppbyggingu iðnaðar og þjónustu og flutning starfa frá höfuðborgarsvæðinu til umræddra svæða. Í hvorri nefnd eiga sæti fimm fulltrúar, þar af þrír fulltrúar stjórnvalda og tveir fulltrúar frá viðkomandi svæðum.
Í skýrslu Byggðastofnunar og Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um Hagvöxt landshluta 1998-2005,sem kom út í ágúst 2007, kemur fram að hagvöxtur er mismikill eftir landshlutum. Þannig er hagvöxtur á Norðurlandi vestra á umræddu tímabili hinn minnsti á landinu. Framleiðslan í landshlutanum minnkaði um 1,5% á ári frá 1998 til 2005. Þá eru nokkur fámenn byggðarlög á Norðurlandi eystra og Austurlandi sem eiga undir högg að sækja í atvinnulegu tilliti. Atvinnu- og búsetuskilyrði í þessum byggðarlögum eru afar veik og hagvöxtur neikvæður.
Formaður beggja nefndanna verður Halldór Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu.
Reykjavík 4. janúar 2008