Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2008 Utanríkisráðuneytið

Sameiginleg fréttatilkynning utanríkisráðherra Norðurlandanna vegna Srí Lanka

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 4/2008

Norrænu ríkin harma þá ákvörðun stjórnvalda á Srí Lanka að segja upp vopnahléssamningnum frá 2002

Ríkisstjórn Srí Lanka hefur tilkynnt norskum stjórnvöldum formlega um ákvörðun sína frá 2. janúar þess efnis að segja upp vopnahléssamningnum og komi uppsögnin til framkvæmda 16. janúar 2008. Þar eð umboð eftirlitssveitarinnar á Srí Lanka leiðir af þeim samningi ætlast stjórnvöld á Srí Lanka til þess að eftirlitssveitin hætti störfum sama dag.

Þessi ákvörðun er tekin þegar tíð átök standa yfir milli fyrrnefndra stjórnvalda og baráttusamtaka Tamíl Tígra (LTTE) sem líkja má við styrjaldarástand þar sem fjöldi óbreyttra borgara er á flótta og endurtekin mannréttindabrot eru framin. Norrænu ríkin lýsa þungum áhyggjum sínum af versnandi ástandi á Srí Lanka, heildarþróun sem nú hefur leitt til þess að annar samningsaðilinn segir samningnum upp.

Vopnahléssamningurinn var gerður milli stjórnvalda á Srí Lanka og baráttusamtaka Tamíl Tígra í febrúar 2002 og hefur verið í gildi í hartnær sex ár. Samningurinn var grundvöllur friðarferlisins og alþjóðlegrar viðleitni til þess að aðstoða Srí Lanka við að binda enda á áralöng átök í landinu. Að beiðni deiluaðila komu norrænu ríkin á fót borgaralegri eftirlitssveit í því skyni að fylgjast með því að vopnahléið væri haldið, bæði með tilliti til þess að hernaðarátökum væri hætt og að eðlilegt ástand kæmist á að nýju.

Vopnahléssamningurinn hafði margvísleg jákvæð áhrif í för með sér. Fyrstu þrjú árin fækkaði fórnarlömbum átakanna stórlega þannig að allt að tíu þúsund mannslífum kann að hafa verið hlíft. Samningurinn jók ferðafrelsi allra íbúa Srí Lanka og skapaði efnahagsleg tækifæri. Þá fór ástand mannréttindamála batnandi og vernd borgara efldist. Engu að síður hafa brot á samningnum undanfarin tvö ár verið fjölmörg og orðið sífellt alvarlegri.

Norrænu ríkin hafa af því áhyggjur að ofbeldi og mannlegar þjáningar muni nú aukast að mun. Heimkvaðning eftirlitssveitarinnar á Srí Lanka mun þýða endalok þýðingarmikillar starfsemi sem veitti borgurunum vernd og stuðlaði að því að koma sjónarmiðum fórnarlamba átakanna og fjölskyldna þeirra á framfæri.

Norrænu ríkin telja að eina leiðin til varanlegs friðar sé að finna pólitíska lausn sem taki tillit til ágreiningsefna allra þjóðarbrota í landinu. Uppsögn vopnahléssamningsins mun aðeins tálma för manna aftur að samningaborðinu.

Norrænu ríkin eru hvort tveggja í senn þakklát fyrir og stolt af viðleitni og framlagi alþjóðlegra og innlendra eftirlitsmanna og starfsliðs eftirlitssveitarinnar á Srí Lanka við mjög krefjandi aðstæður.

 

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra Íslands
Per Stig Möller, utanríkisráðherra Danmerkur
Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar
Ilkka Kanerva, utanríkisráðherra Finnlands



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta