Félags- og tryggingamálaráðherra heimsótti Tryggingastofnun ríkisins
Í gær heimsótti Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, Tryggingastofnun ríkisins en frá síðustu áramótum heyrir stofnunin undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.
Í fylgd með Jóhönnu voru Ragnhildur Arnljótsdóttir ráðuneytisstjóri og Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður ráðherra. Ráðherra fór um húsnæði Tryggingastofnunar og heilsaði upp á starfsfólk. Hjá stofnuninni starfa um 200 manns á tveimur starfsstöðvum, annars vegar á Laugavegi 114 og hins vegar á hjálpartækjamiðstöð í Kópavogi. Starfsfólk stofnunarinnar sér um framkvæmd almannatrygginga, en til þeirra teljast lífeyris-, sjúkra- og slysatryggingar. Árlega fara um stofnunina rúmlega 18% af útgjöldum ríkissjóðs, enda afgreiðir Tryggingastofnun bætur samkvæmt lögbundnum réttindum í tugum bótaflokka. Stofnunin starfar samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, og lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.