Endurnýjun samnings menntamálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og sveitarfélaganna á Austurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu
Í dag, 9. janúar 2008, var á Egilsstöðum undirritaður samningur um samstarf ríkis og allra níu sveitarfélaganna á Austurlandi um menningarmál og menningartengda ferðaþjónustu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra undirrituðu samninginn af hálfu ríkisins en Björn Hafþór Guðmundsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, undirritaði samninginn fyrir hönd sveitarfélaganna.
Þetta er í þriðja sinn sem gengið er til slíks samnings en fyrsti menningarsamningurinn var undirritaður árið 2001 og var einnig sá fyrsti sem gerður var við landshluta um þennan málaflokk. Samningurinn hefur í för með sér rúmlega 25% hækkun á framlagi ríkisins miðað við síðasta samning og hækkar það úr 38 milljónum í 48 milljónir króna en aukin áhersla er á menningartengda ferðaþjónustu í þessum samningi. Ávinningur fyrri samninga er ótvíræður fyrir landsfjórðunginn og samfélagið í heild og ríkir ánægja með samstarfið. Menningarráð Austurlands fer með daglega framkvæmd samningsins og hefur það starf, samhliða uppbyggingu sveitarfélaga á menningarstarfsemi, skilað umtalsverðum árangri á síðustu árum. Mikill vöxtur hefur verið í menningarstarfi og samstarf aukist, jafnt innan fjórðungs sem við menningarstofnanir utan Austurlands, auk þess sem Menningarráðið hefur beitt sér fyrir alþjóðlegu samstarfi.
Nýr menningarsamningur ríkis og sveitarfélaga hefur í för með sér að Menningarráð Austurlands mun hafa til ráðstöfunar hærri fjárhæð til úthlutunar menningarstyrkja og til starfsemi menningarmiðstöðva árið 2008 en á síðasta ári.
Við sama tækifæri undirrituðu öll sveitarfélög á Austurlandi nýjan samstarfssamning um menningarmál, einnig til þriggja ára, en framlög þeirra vegna menningarsamstarfsins aukast í samræmi við hækkun ríkisins. Þess ber að geta að sveitarfélög á Austurlandi juku heildarframlög sín til menningarmála á samningstíma síðasta samnings, frá 2005-2007, um tæp 40% og nema þau nú um 250 milljónum króna.