Styrkir veittir úr þróunarsjóði innflytjendamála á málþingi um innflytjendamál
Um tvö hundruð manns sóttu málþing sem félags- og tryggingamálaráðuneytið og innflytjendaráð stóðu fyrir í dag um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda. Að málþingi loknu afhenti félags- og tryggingamálaráðherra 17 styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála og er það í fyrsta sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum.
Alls bárust 32 umsóknir í sjóðinn á þessu ári að upphæð tæpar 42 milljónir króna og voru veittir 17 styrkir í þremur flokkum, þ.e. þróunarverkefni, rannsóknir og önnur verkefni. Heildarfjárhæð styrkjanna 9.250 þúsund krónur.
- Samráðsvettvangur trúarbragða hlaut styrk til verkefnisins Fyrstu skrefin vegna andláts og jarðarfara. Um er að ræða annars vegar útgáfu á bæklingi um fyrstu viðbrögð vegna andláts og við jarðarfarir og hins vegar ráðstefnu um tímamót/æviskeið í mismunandi trúarbrögðum fyrir fagfólk. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 250.000 krónur.
- Bæjar- og héraðsbókasafnið á Selfossi hlaut styrk vegna verkefnisins Bækur og móðurmál: Pólska. Í því felst að frumskrá bækur á pólsku en mikill ásókn hefur verið í bækur á pólsku á bókasöfnum landsins. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 250.000 krónur.
- Rasmus ehf. hlaut styrk til að þýða stærðfræðivefinn rasmus.is yfir á pólsku. Markmið verkefnisins er að auðvelda pólskum innflytjendum að læra stærðfræði og að opna leið fyrir pólska foreldra að styðja börn sín í námi. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Mímir – símenntun hlaut styrk til verkefnisins Jöfn tækifæri til starfsnáms. Markmið verkefnisins er að styrkja stöðu starfsmanna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði og hvetja þá til frekara náms á sviði umönnunar. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Þekkingarsetur Þingeyinga hlaut styrk til verkefnisins Íslenskuspilið en markmið þess er að þróa námsefni sem nýtist við íslenskukennslu fullorðinna og er lögð áhersla á munnlega tjáningu. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Samband sveitarfélaga á Austurlandi hlaut styrk vegna verkefnisins Svona gerum við. Í verkefninu er leitað ráða hvernig megi bæta þjónustu við innflytjendur á Austurlandi. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Skrifstofa stéttarfélaganna á Húsavík hlaut styrk til verkefnisins Samvinna og ábyrgð í málefnum innflytjenda. Um er að ræða framhald á tilraunaverkefni þar sem markmiðið er að efla innflytjendur í Norðurþingi til þátttöku í atvinnulífinu og samfélaginu almennt. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 750.000 krónur.
- Reykjanesbær hlaut styrk til verkefnisins Hver vegur að heiman er vegurinn heim: Aðlögun innflytjenda að lífi í nýju landi. Markmiðið verkefnisins er að nýir íbúar verði fljótt fullgildir og jákvæðir þátttakendur í samfélagi Reykjanesbæjar. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð ein milljón króna.
- Barnaheill hlaut styrk til verkefnisins Barna- og unglingalína. Markmið verkefnisins er að veita börnum, íslenskum og erlendum, aðgang að síma- og netlínu þar sem þau geta á auðveldan hátt tjáð skoðanir sínar og líðan. Svörun verður á íslensku og tungumálum fjölmennustu innflytjendahópa. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð ein milljón króna.
- Þóroddur Helgason hlaut styrk vegna rannsóknarinnar Samanburður á fjölmenningarlegum skólum í þremur löndum. Í rannsókninni verður borið saman lagalegt umhverfi þriggja skóla, á Íslandi, í Svíþjóð og Skotlandi, hvaða skyldur hið opinbera leggur á skólana og hvernig eru þeir í stakk búnir fjárhagslega og faglega að mæta þeim kröfum. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 250.000 krónur.
- Unnur Dís Skaptadóttir hlaut styrk til rannsóknarinnar Þátttaka í íslensku samfélagi. Filippseyingar á Íslandi. Í rannsókninni verða athugaðir möguleikar Filippseyinga á þátttöku í samfélaginu og hvar skórinn kreppir í aðlögun þeirra að íslensku samfélagi. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 250.000 krónur.
- Helga Ólafs hlaut styrk til rannsóknarinnar Fjölmiðlanotkun Pólverja á Íslandi. Í rannsókninni mun Helga kanna hvaða miðla Pólverjar nota og mun slík rannsókn nýtast opinberum aðilum til að koma upplýsingum á framfæri til innflytjenda. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð 250.000 krónur.
- Brian Daniel Marshall hlaut styrk til rannsóknar á íþróttaiðkun innflytjenda hérlendis. Frístundaiðkun hefur verið ábótavant meðal innflytjenda en frístundaiðkun gæti reynst góð leið til að komast inn í íslenskt samfélag auk þess að auka vellíðan barns og draga úr líkum á áhættuhegðun. Brian hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst hlaut styrk til rannsóknarinnar Afstaða Íslendinga til innflytjenda á Íslandi. Markmið verkefnisins er að greina afstöðu Íslendinga til innflytjenda á Íslandi og verða niðurstöðurnar nýttar til að greina hvort Íslendingar telji sig vera í samkeppni við innflytjendur á vinnumarkaði, hvort þeir telji innflytjendur vera ógn við íslenska menningu og hvort kynþáttahyggja sé undirliggjandi meðal Íslendinga. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð ein milljón króna.
- Kristín Erla Harðardóttir hlaut styrk til rannsóknarinnar Könnun á viðhorfum innflytjenda. Markmið verkefnisins er að skoða viðhorf innflytjenda til ýmissa þátta tengdra búsetu þeirra hérlendis. Rannsóknin hlaut styrk að fjárhæð ein milljón króna.
- Oddný Helgadóttir og Jón Gunnar Ólafsson hlutu styrk til að þróa námsefni við heimildarmyndina Okkar raddir en sú mynd er byggð á viðtölum við börn innflytjenda hérlendis. Verkefnið hlaut styrk að fjárhæð 500.000 krónur.
- Þekkingarnet Austurlands hlaut styrk til að halda málþing um hvernig mætti samræma íslenskukennslu á Austurlandi. Verkefnið fékk styrk sem nemur 250.000 krónum.