Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Endurskoðuð þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins

Fjármálaráðuneytið, fréttatilkynning nr. 1/2008

Fjármálaráðuneytið birtir í dag endurskoðaða þjóðhagsspá fyrir árin 2007 til 2009 í skýrslunni Þjóðarbúskapurinn - vetrarskýrsla 2008. Fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála 2007-2009 á grundvelli endurskoðaðrar þjóðhagsspár fjármálaráðuneytisins. Þá eru breytingar frá haustspá ráðuneytisins útskýrðar. Helstu niðurstöður spárinnar eru þessar:

Flest bendir til að íslenska hagkerfið sé enn á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar eftir öflugt uppgangstímabil tengt markaðs- og alþjóðavæðingu þess. Aðhaldssöm hagstjórn, lok mikilla stóriðjuframkvæmda, lækkun hlutabréfaverðs og minna framboð af ódýru erlendu lánsfé draga úr innlendri eftirspurn og ójafnvægið í þjóðarbúskapnum minnkar á spátímanum. Gert er ráð fyrir að óróleiki á alþjóðlegum og innlendum fjármálamarkaði gangi niður og að hagvöxtur í heiminum verði áfram mikill en nokkru minni en áður var talið m.a. vegna útlánatapa á fasteignamörkuðum.

Áætlað er að hagvöxtur hafi numið 2,7% árið 2007, sem er tveimur prósentustigum meira en í haustspá vegna meiri einkaneyslu og minni samdráttar í fjárfestingu. Þrátt fyrir aukinn óróleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og lækkun hlutabréfaverðs frá miðju síðasta ári er áfram gert ráð fyrir hóflegum hagvexti árið 2008, eða 1,4%, þegar hagfelld þróun utanríkisviðskipta yfirstígur áframhaldandi samdrátt innlendrar eftirspurnar. Árið 2009 er útlit fyrir 0,4% hagvöxt, einu og hálfu prósentustigi minna en í haustspá, þegar vöxtur einkaneyslu og fjárfestingar gefur eftir. Viðskiptahalli á árinu 2007 er nú talinn minni en í fyrri áætlunum, eða um 12,8% af landsframleiðslu, aðallega vegna hagstæðari þáttatekjujafnaðar. Spáð er að hann minnki hratt og verði 9,6% árið 2008 og 6,8% af landsframleiðslu árið 2009. Atvinnuleysi í ár er minna en í haustspá, eða 1,9% af vinnuafli, en spáð að það aukist í 3,6% árið 2009 þegar framleiðsluslaki myndast í hagkerfinu. Um leið er spáð að verðbólga, sem var 5,0% árið 2007, verði 4,3% í ár, sem er aukning um 1 prósentustig frá haustspá, og að 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði náð á fyrra hluta ársins 2009. Áætlun um afgang á tekjujöfnuði ríkissjóðs árið 2008 er lítið breytt frá haustspá, en sumir tekju- og gjaldaliðir hækka frá fyrri spá á meðan nokkrir lækka. Spáð er að afkoma ríkissjóðs snúist í lítinn halla árið 2009. Áfram er miðað við að Seðlabankinn fylgi aðhaldssamri peningastjórn í ár, eða þar til skýr merki eru komin fram um meira jafnvægi í efnahagslífinu. Spáð er að gengi krónunnar gefi lítillega eftir á spátímabilinu.

Óvissuþættir í spánni eru taldir vera nokkru fleiri en oft áður. Helst ber að nefna þróun á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, gengi krónunnar, kjarasamninga og frekari stóriðjuframkvæmdir. Í því sambandi má nefna að fjármálakerfið á Íslandi er talið traust, staða ríkissjóðs sterk, starfsemi fyrirtækja mikil og atvinnustig hátt. Íslenska hagkerfið hefur sýnt eindæma viðnámsþrótt þegar aðstæður á mörkuðum hafa skyndilega breyst en sá árangur er rakinn til aukinnar skilvirkni og sveigjanleika þess.

Nánari upplýsingar um spána veitir Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins; sími 545 9178 eða 862 0017.


Fjármálaráðuneytinu, 15. janúar 2008

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta