Ráðherra afhendir varðliðum þakklætisvott
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra heimsótti börn í bekk 63 í Hólabrekkuskóla í Reykjavík í gær og afhenti þeim þakklætisvott fyrir þátttöku þeirra á Umhverfisþingi umhverfisráðuneytisins í október á liðnu ári.
Bekkurinn tók þátt í Varðliðum umhverfisins, verkefnasamkeppni umhverfisráðuneytisins, Landverndar og Náttúruskóla Reykjavíkur um umhverfismál á liðnu ári og fengu viðurkenningu fyrir. Verkefni bekkjarins fjallaði um ruslpóst. Krakkarnir söfnuðu ruslpósti heima hjá sér í fjórar vikur og komu með í skólann. Þeir margfölduðu svo meðaltal þess sem barst þeim með fjölda heimila á Íslandi. Nemendurnir komust m.a. að því að ruslpóstur sem berst inn á heimili Íslendinga á ári er nærri því jafn mikill að rúmmáli og blokk í nágrenni skólans og u.þ.b. jafn þungur og 14 strætisvagnar.
Myndin að neðan er tekin af bekknum á Umhverfisþingi 2007.