Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Afmælisár hjá Skipulagsstofnun

Skipulagsstofnun
Skipulagsstofnun

Á árinu 2008 eru tímamót í sögu Skipulagsstofnunar að ýmsu tilefni. Með breytingu á skipulagslögum árið 1938 var skipulagsnefndinni, sem fram að þeim tíma hafði sjálf unnið að skipulagsgerð, veitt heimild til að ráða húsameistara og ráðunaut í heilbrigðismálum sér til aðstoðar. Ráðning Harðar Bjarnasonar, arkitekts til skipulagsnefndarinnar árið 1938 markar upphaf þeirrar stofnunar sem síðar varð embætti skipulagsstjóra ríkisins og Skipulagsstofnun árið 1998. Þannig eru á árinu 2008 70 ár frá því komið var á fót forvera Skipulagstofnunar. Á því ári verða einnig 10 ár frá gildistöku skipulags- og byggingarlaganna og 15 ár frá því fyrstu lög um mat á umhverfisáhrifum voru sett hér á landi.

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að nota þessi tímamót til að vekja athygli á nokkrum viðfangsefnum stofnunarinnar og stuðla þannig að aukinni umræðu um skipulags-, umhverfis- og byggingarmál. Að frátöldum júlímánuði og júlí er stefnt að einhverjum atburði í hverjum mánuði. Í janúar verða haldin námskeið í skipulagsgerð og í febrúar verður opnuð ný heimasíða, ný skipulagsvefsjá og haldið málþing um umhverfismat áætlana. Í mars tekur Skipulagsstofnun þátt í alþjóðlegri snjóflóðaráðstefnu á Egilsstöðum og í apríl verður haldið málþing um landsskipulag. Í maí verður árlegur samráðsfundur Skipulagsstofnunar og sveitarfélaga og í ágúst verður ársfundur norrænna skipulagsyfirvalda á Höfn í Hornafirði. Í september verður haldið málþing um loftslagsbreytingar og skipulag og í október verður málþing um mat á umhverfisáhrifum. Á alþjóðlega skipulagsdeginum 8. nóvember verður haldið málþing um mótun byggðar og í desember verður málþing þar sem kynntar verða niðurstöður úr könnun Skipulagsstofnunar á stöðu byggingarmála og byggingareftirlits í landinu.

Dagskrá atburða á vegum Skipulagsstofnunar 2008.

Heimasíða Skipulagsstofnunar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta