Lægst boðnir 3,4 milljarðar króna í Bolungarvíkurgöng
Íslenskir aðalverktakar og svissneska fyrirtækið Marti Contractors buðu lægst í gerð Bolungarvíkurganga eða 3.479.000.000 krónur. Kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar var 3.950.000.000 krónur og er tilboðið 87,88% af áætluninni.
Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag en fjórir verktakar voru valdir til að bjóða í verkið eftir forval síðastliðið sumar. Aðrir sem buðu voru Héraðsverk og norska fyrirtækið Leonhard Nilsen & Sönner sem buðu rúma 3,6 milljarða króna, Ístak sem bauð tæpa fjóra milljarða og Háfell og tékkneska verktakafyrirtækið Metrostav sem buðu saman tæplega 6 milljarða króna.
Kristján L. Möller samgönguráðherra var viðstaddur opnun tilboðanna ásamt Jóni Rögnvaldssyni vegamálastjóra og fulltrúum verktakanna. Sagði ráðherra ánægjulegt að verktakar hefðu boðið svo vel í verkið. Þakkaði hann þeim og Vegagerðinni fyrir undirbúninginn og óskaði væntanlegum verktaka velfarnaðar.
Gera má ráð fyrir að hálfan mánuð taki að meta tilboðin og að í framhaldi af því verði gengið frá verksamningi.
Bolungarvíkurgöng liggja milli Hnífsdals og Bolungarvíkur og í útboðinu fólst auk ganganna sjálfra bygging tilheyrandi forskála og vega. Göngin verða 8,7 m breið, 5,1 km löng og vegskálarnir um 310 m langir. Einnig tilheyra verkinu gerð um þriggja km langra vega og bygging tveggja um 15 m langra steinsteyptra brúa.