Aðgerðir gegn mansali
Félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað sérstakan starfshóp sem hefur það hlutverk að fjalla um með hvaða hætti standa megi að gerð og framkvæmd heildstæðrar áætlunar um aðgerðir gegn mansali á Íslandi. Tilgangurinn er að koma betra skipulagi á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir mansal hér á landi. Er meðal annars talið þýðingarmikið að umfang mansals verði rannsakað nánar og lagðar til aðgerðir sem miða að forvörnum og fræðslu um þetta efni meðal almennings. Enn fremur er þýðingarmikið að þar sé að finna aðgerðir sem ætlað er að tryggja aðstoð við þolendur og vernd þeirra sem og aðgerðir sem miðast að því að gerendur verði sóttir til saka. Er mikilvægt að starfshópurinn hafi til hliðsjónar efni alþjóðasamninga til að tryggja að íslensk stjórnvöld fullnægi alþjóðlegum skuldbindingum sínum á þessu sviði.
Guðríður Arnardóttir bæjarfulltrúi hefur verið skipuð formaður starfshópsins en jafnframt hefur Fríða Rós Valdimarsdóttir mannfræðingur verið ráðin tímabundið í þrjá mánuði til að starfa með starfshópnum að gerð áætlunar um aðgerðir gegn mansali hér á landi en stefnt er að því að félags- og tryggingamálaráðherra skili ríkisstjórninni tillögu að slíkri aðgerðaáætlun í apríl næstkomandi.
Í starfshópnum eiga sæti:
- Guðríður Arnardóttir formaður, án tilnefningar.
- Ingibjörg Broddadóttir, án tilnefningar.
- Gunnar Narfi Gunnarsson, tiln. af dóms- og kirkjumálaráðuneytinu.
- Gunnar Alexander Ólafsson, tiln. af heilbrigðisráðuneyti.
- Hjálmar Sigmarsson, tiln. af Jafnréttisstofu.
- Paola Cardenas, tiln. af Rauða krossi Íslands.
- Felix Bergsson, tiln. af Reykjavíkurborg.
- Ómar Stefánsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
- Sigþrúður Guðmundsdóttir, tiln. af Samtökum um kvennaathvarf.
- Guðrún Jónsdóttir, tiln. af Stígamótum.