Dregið úr magni raftækjaúrgangs og endurvinnsla aukin samkvæmt frumvarpi
Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs. Megin markmið frumvarpsins er að draga úr magni raftækjaúrgangs, auka endurnýtingu og endurnotkun á slíkum úrgangi og vinna að aukinni umhverfisvitund allra sem höndla með vöruna.
Frumvarpið byggir á svokallaðri framleiðendaábyrgð og samkvæmt henni eru settar skyldur á framleiðendur og innflytjendur til að fjármagna, safna, meðhöndla og endurnýta eftir atvikum raftækjaúrgang.
Notendur raftækja á heimilum munu samkvæmt frumvarpinu geta skilað raftækjaúrgangi á almennar söfnunarstöðvar í sveitarfélögum, án þess að greiða fyrir það. Það eru því framleiðendur sem eiga að fjármagna a.m.k. söfnun frá söfnunarstöðvum og meðferð, endurnýtingu og förgun á raftækjaúrgangi. Þannig skal hver framleiðandi bera ábyrgð á því að fjármagna meðferð úrgangs frá eigin framleiðslu.
Í frumvarpinu er lögð áhersla á að skýra ábyrgðarsvið sveitarfélaga annars vegar og framleiðanda og innflytjanda raftækjaúrgangs hins vegar. Sveitarfélögin eiga t.d. að bjóða á söfnunarstöðvum sínum upp á gáma fyrir móttöku á raftækjaúrgangi. Framleiðendur og sveitarfélög munu samkvæmt frumvarpinu eiga samráð um að tryggja að almenningur fái aðgang að upplýsingum um skil á raftækjum. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin sjái um að kynna sín söfnunarkerfi, t.d. hvar almenningur getur skilað raftækjaúrgangi og hvaða tækjum þeir taki við. Það verður hins vegar á ábyrgð framleiðenda að kynna fyrir almenningi hvaða tækjum beri að skila til söfnunarstöðva.
Frumvarpið var samið af nefnd sem umhverfisráðuneytið skipaði en í henni sátu fulltrúar ráðuneytisins, Félags íslenskra stórkaupmanna, Umhverfisstofnunar, Samtaka atvinnulífsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Víðtæk samstaða er meðal hagsmunaaðila um það kerfi sem lagt er til að sett verði á laggirnar.