Auglýsing um styrki úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla 2008
Menntamálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum í Endurmenntunarsjóð grunnskóla árið 2008. Þeir sem hyggjast standa fyrir endurmenntun fyrir grunnskólakennara geta sótt um framlög úr sjóðnum, t.d. skólaskrifstofur, sveitarfélög, skólar, kennaramenntunarstofnanir, félög og fyrirtæki. Gert er ráð fyrir að námskeiðum verði að fullu lokið eigi síðar en við lok skólaársins 2008-2009. Verði ekki unnt að ljúka námskeiðum innan þeirra tímamarka fellur styrkveiting niður.
Umsækjendur þurfa að sækja um aðgang að umsóknavef Stjórnarráðsins á vefslóðinni http://umsoknir.stjr.is. Aðgangur er veittur á kennitölu umsækjanda (ekki kennitölu stofnunar) og verður lykilorð sent viðkomandi á netfang sem hann gefur upp við nýskráningu. Lykilorðinu má breyta eftir innskráningu með því að opna Mínar stillingar.
Umsækjendur skrá sig inn með kennitölu og lykilorði og velja menntamálaráðuneytið undir flipanum Umsóknir. Þar er umsóknareyðublað fyrir Endurmenntunarsjóð grunnskóla. Svæði merkt rauðri stjörnu verður að fylla út. Umsækjendur geta fylgst með afgreiðslu umsókna sinna með því skrá sig inn á umsóknavefinn
Í umsóknum skal gefa ítarlegar upplýsingar um hvers konar endurmenntunartilboð umsækjandi hyggst bjóða fram, m.a. markmið námsins, stað og tíma, áætlaðan fjölda þátttakenda, skipulag kennslu, stjórnun, ábyrgðarmann og annað það sem máli kann að skipta við mat á umsókn. Einnig skal leggja fram sundurliðaða kostnaðaráætlun. Þær umsóknir einar koma til álita sem sýna fram á að endurmenntunartilboðið mæti þörfum grunnskólans, sé byggt á skólastefnu, aðalnámskrá, fagmennsku og gæðum. Sjóðurinn veitir ekki fé til ferða og uppihalds kennara sem njóta endurmenntunarinnar.
Þegar fyrir liggur ákvörðun um hverjir fá styrk verður gerður sérstakur samningur um hvert endurmenntunarverkefni þar sem fram kemur m.a. lýsing á markmiðum og fyrirhugaðri framkvæmd og hvernig greiðslum verður háttað.
Umsóknarfrestur er til 17. febrúar 2008.
Nánari upplýsingar um Endurmenntunarsjóð grunnskóla veitir Erla Ósk Guðjónsdóttir í síma 545 9500 eða í tölvupósti á [email protected].