Ísland sendir 10 milljóna neyðaraðstoð til Kenía
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, hefur ákveðið að leggja 7 milljónir kr. til hjálparstarfs Rauða krossins í Kenía. Neyðarástand hefur skapast í landinu í kjölfar forsetakosninga sem fram fóru þann 27. desember sl. Talið er að hundruðir manna hafi látið lífið eða særst í ofbeldisaðgerðum og tugir þúsunda hafa neyðst til að flýja heimili sín.
Ákvörðun ráðherra er svar við neyðarbeiðni Alþjóða Rauði krossins. Fjárstuðningurinn fer til Rauða krossins í Kenía, en starfið síðustu vikur hefur meðal annars falist í að veita fórnarlömbum ofbeldisverka skyndihjálp og aðhlynningu, skjóta skjólshúsi yfir þá sem misst hafa heimili sín, aðstoða við að bera kennsl á látna, sameina fjölskyldur sem hafa sundrast og dreifa hjálpargögnum. Alþjóða Rauði krossinn hefur unnið að því að útvega sjúkragögn, lyf, matvæli, búsáhöld, vatn og hreinlætisaðstöðu og stefnt er að því að veita allt að 100.000 manns aðstoð.
Rauði kross Íslands hefur ákveðið að veita 3 milljónum króna úr hjálparsjóði sínum þannig að heildaframlag Íslands til hjálparstarfs Rauða krossins í Kenía nemur 10 milljónum kr.