Viðbrögð við óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í endurskoðaðri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins sem gefin var út 15. janúar sl. kemur fram að íslenska hagkerfið er á leið inn í skeið hjaðnandi hagvaxtar.
Spáð er að hagvöxtur nemi einu og hálfu prósenti í ár og hálfu prósenti á næsta ári. Áhrif aðhaldssamrar hagstjórnar, loka mikilla stóriðjuframkvæmda, lækkunar hlutabréfaverðs og minna framboðs af ódýru erlendu lánsfé leggjast á eitt að draga úr innlendri eftirspurn og ójafnvæginu í þjóðarbúskapnum.
Í spánni er gert ráð fyrir að óróleiki á alþjóðlegum og innlendum fjármálamarkaði gangi niður og hagvöxtur í heiminum verði áfram mikill en nokkru minni en áður var talið m.a. vegna útlánatapa á fasteignamörkuðum. Þó er nefnt að óvenju margir óvissuþættir eru til staðar sem geta breytt niðurstöðunni. Meðal þeirra eru atriði eins og þróun á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum, gengi krónunnar, kjarasamningar og frekari stóriðjuframkvæmdir.
Nú er ljóst að þróunin á fjármálamörkuðum hefur verið neikvæð síðan spáin var birt og hagvaxtarhorfur því heldur verri. Í því sambandi er rétt að minna á tvö mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi er fjármálakerfið á Íslandi talið í grunninn traust, staða ríkissjóðs sterk, starfsemi fyrirtækja mikil og atvinnustig í landinu hátt. Íslenska hagkerfið hefur einnig sýnt eindæma viðnámsþrótt þegar aðstæður á mörkuðum hafa breyst. Í öðru lagi er mikilvægt að hafa í huga að þróunin hér á landi að undanförnu hefur verið mjög háð þróuninni alþjóðlega. Það skiptir því meira máli en oft áður fyrir framvinduna hér á landi hvernig stjórnvöld annars staðar bregðast við ástandinu.
Varðandi erlenda áhrifaþætti má nefna að hagfræðingurinn Frederick Mishkin lét frá sér fyrir nokkru skýrslu um forsendur fjármálakreppu. Þar kom fram að oftast er það samspil lítilla gæða útlána og slæmrar lausafjárstöðu sem framkallar slíkar kreppur og nefnir hann Mexíkó árið 1994 og Asíu árið 1996 í því sambandi. Nú er ljóst að þessi atriði eru ástæða vandræða Bandaríkjanna í dag. Ástandið þar hefur jafnframt áhrif víða um heim og þar á meðal hér á landi. Það sem kannski meiru skiptir er hvað stjórnvöld þar í landi gera til að bregðast við þróuninni áður en hún fær tækifæri til að grafa um sig og framkalla djúpan samdrátt.
Mishkin telur mikilvægt og áhrifaríkt að seðlabanki lands sem upplifir lausafjárskort hafi skýra stefnu um að veita nægu lánsfé til markaðsaðila og lækka vexti að því marki sem verðbólguhorfur í landinu leyfa. Þetta er nákvæmlega það sem seðlabanki Bandaríkjanna hefur gert, en Mishkin er jafnframt stjórnarmaður bankans. Í fyrradag voru stýrivextir þar lækkaðir um 75 grunnpunkta, í 3,5%. Jafnframt hefur bandaríska ríkisstjórnin ákveðið að koma með beina innspýtingu í hagkerfið að jafnvirði 150 milljörðum dollara á árinu.
Líklegt má telja að þessi viðbrögð, sérstaklega aðgerðir bankans til að koma til móts við lánsfjárþörf tengda óvissu markaðsaðila, verði hjálpleg þegar fram í sækir. Þannig eru bandarísk stjórnvöld, þar sem rót vandans liggur, að bregðast við ástandinu af næmni og sveigjanleika. Því má rétt eins búast við því að aðstæður lagist í Bandaríkjunum þegar fram í sækir sem mun hafa mikil áhrif á alþjóðlega fjármálamarkaði og efnahagsframvindu, einnig hér á landi.