Aðgerðaáætlun gegn fátækt
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingarmálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem falið verður að vinna aðgerðaáætlun til að sporna gegn fátækt og treysta öryggisnet velferðarkerfisins.
Starfshópurinn skal meðal annars hafa hliðsjón af þeim aðgerðum til að vinna bug á fátækt sem lagðar voru til í skýrslu forsætisráðherra um fátækt á Íslandi, 981. mál 130. löggjafarþings, og skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra, 184. mál 133. löggjafarþings. Starfshópurinn skal jafnframt afla sér upplýsinga um skýrslur og rannsóknir sem unnar hafa verið á vegum hagsmunasamtaka, frjálsra félagasamtaka og sérfræðinga varðandi fátækt á Íslandi.
Starfshópurinn skal skila ráðherra drögum að aðgerðaáætlun eigi síðar en 1. september 2008.
Starfshópinn skipa:
- Björk Vilhelmsdóttir, skipuð án tilnefningar, formaður,
- Þórunn Sveinbjörnsdóttir, tiln. af Alþýðusambandi Íslands,
- Helga G. Halldórsdóttir, tiln. af Rauða krossi Íslands,
- Vilborg Kristín Oddsdóttir, tiln. af Hjálparstarfi kirkjunnar,
- Gunnar Sandholt, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
- Einar Árnason, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.