Fundur jafnréttisráðherra í Slóveníu
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, situr nú fund jafnréttisráðherra Evrópusambandsríkja og EES-landa sem haldinn er í Slóveníu.
Fulltrúar 30 landa fjalla á ráðherrafundinum um stöðu jafnréttismála og áhrifaríkar aðferðir til þess að ná árangri á því sviði.
Ráðherra fjallaði í ávarpi sínu meðal annars um 80% atvinnuþátttöku kvenna sem er með því hæsta sem gerist í heiminum og væri ein af meginstoðum hagvaxtar og jafnréttis á Íslandi.
Ráðherra fjallaði um 90% þátttöku íslenskra feðra í feðraorlofi og hvernig það styrkti jafnrétti á Íslandi. Fram kom að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hyggst kynna breytingar á reglum um fæðingarorlof sem kveður á um fæðingarorlof feðra.
Ráðherra greindi jafnframt frá frumvarpi til nýrra jafnréttislaga sem hún bindur miklar vonir við.
Á ráðstefnu um jafnréttismal sem haldin var í tengslum við ráðherrafundinn kynnti Guðný Björk Eydal dósent við Háskóla Íslands nýjar niðurstöður úr rannsókn sem sýnir að íslenskir feður taka aukinn þátt í umönnunar- og heimilisstörfum eftir að löggjöf um fæðingarorlof tók gildi. Niðurstöðurnar benda einnig til aukins jafnvægis milli vinnutíma karla og kvenna.
„Þetta eru áhugaverðar niðurstöður“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra. „Það er ánægjulegt að sjá hve margar þjóðir líta til Íslands sem fyrirmyndar, að því er varðar mikla þátttöku feðra í feðraorlofi.
Sérfræðingar eru sammála um að mikilvægt sé að hefja jafnréttisuppeldi sem fyrst og vil ég leggja áherslu á að efla jafnréttisfræðslu í leikskólum og grunnskólum verulega á næstu árum.“