Nefnd um þróun Evrópumála
Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur verið ákveðið að setja á laggirnar nefnd um þróun Evrópumála. Formenn nefndarinnar verða Illugi Gunnarsson alþingismaður, skipaður af forsætisráðherra, og Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður, skipaður af utanríkisráðherra. Í nefndinni eiga einnig sæti fulltrúar stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi, einn frá hverjum flokki, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Framsóknarflokknum og Frjálslynda flokknum. Að auki býðst Alþýðusambandi Íslands, Samtökum opinberra starfsmanna, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands að tilnefna hvert einn fulltrúa í nefndina.
Með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eru verkefni nefndarinnar þessi:
-
Að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi.
-
Að framkvæma nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, á grunni niðurstaðna Evrópunefndar frá mars 2007.
-
Að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.
Nefndin ákveður sjálf hvaða málaflokka hún tekur fyrir. Áhersla skal lögð á beina miðlun upplýsinga til og frá stofnunum á Evrópuvettvangi en nefndin skal, eftir því sem tilefni er til, standa fyrir útgáfu, samráðsfundum með hagsmunaaðilum og heimsóknum erlendra sérfræðinga. Nefndin skal starfrækja heimasíðu þar sem starfsáætlun, fundargerðir og ítarefni er birt.
Nefndin skilar ríkisstjórninni skýrslu árlega. Hún starfar á vegum forsætisráðuneytis en utanríkisráðuneytið og sendiráð veita nauðsynlega aðstoð.
Skipunartími nefndarinnar er frá 1. febrúar 2008 til 1. febrúar 2011.