Hoppa yfir valmynd
31. janúar 2008 Forsætisráðuneytið

Nefnd um þróun Evrópumála

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur verið ákveðið að setja á laggirnar nefnd um þróun Evrópumála. Formenn nefndarinnar verða Illugi Gunnarsson alþingismaður, skipaður af forsætisráðherra, og Ágúst Ólafur Ágústsson alþingismaður, skipaður af utanríkisráðherra. Í nefndinni eiga einnig sæti fulltrúar stjórn­mála­flokka sem sæti eiga á Alþingi, einn frá hverjum flokki, Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Framsóknarflokknum og Frjálslynda flokknum. Að auki býðst Alþýðusambandi Íslands, Samtökum opinberra starfsmanna, Samtökum atvinnulífsins og Við­skipta­ráði Íslands að tilnefna hvert einn fulltrúa í nefndina.

Með vísan til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eru verkefni nefndarinnar þessi:

  1. Að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá mars 2007 um aukna þátttöku stjórn­mála­manna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi.
  2. Að framkvæma nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart Evrópusambandinu, á grunni niðurstaðna Evrópunefndar frá mars 2007.
  3. Að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Ís­lend­inga.

Nefndin ákveður sjálf hvaða málaflokka hún tekur fyrir. Áhersla skal lögð á beina miðlun upp­lýs­inga til og frá stofnunum á Evrópuvettvangi en nefndin skal, eftir því sem tilefni er til, standa fyrir útgáfu, samráðsfundum með hagsmunaaðilum og heimsóknum erlendra sérfræðinga. Nefnd­in skal starfrækja heimasíðu þar sem starfsáætlun, fundargerðir og ítarefni er birt.

Nefndin skilar ríkisstjórninni skýrslu árlega. Hún starfar á vegum forsætisráðuneytis en utanríkis­ráðu­neytið og sendiráð veita nauðsynlega aðstoð.

Skipunartími nefndarinnar er frá 1. febrúar 2008 til 1. febrúar 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta