Skattlagning olíuleitar og -vinnslu í íslenskri lögsögu
Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 31. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.
Í janúar 2009 er stefnt að því að hægt verði að bjóða út sérleyfi til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg.
Hluti af undirbúningi stjórnvalda vegna þess er að nú er unnið að frumvarpi að skattlagningu slíkrar starfsemi í fjármálaráðuneytinu. Ýmis álitaefni koma til skoðunar við skattlagningu olíuleitar og olíuvinnslu. Sérstaða þeirra fyrirtækja sem að slíkri starfsemi standa liggur í gríðarlegum kostnaði vegna olíuleitar og olíuvinnslu og þeirri óvissu sem fylgir starfseminni.
Ef litið er til nágrannaríkja okkar má sjá að þau byggja gjaldtöku og skattheimtu fyrirtækja í olíuleit og olíuvinnslu á svipuðum grunni en með misjöfnu fyrirkomulagi. Almennt hafa ríki margþætta skattheimtu sem miðar að því að ná til sín sem mestu af hagnaði olíuvinnslunnar og skattlagning olíufyrirtækja er almennt meiri en annarra fyrirtækja.
Algengast er í nágrannalöndum okkar að leyfishafi greiði leyfisgjald vegna undirbúnings og útgáfu leyfis og svæðisgjald vegna afnota á því svæði sem honum er úthlutað vegna rannsókna og/eða vinnslu kolvetnis. Í mars á síðasta ári lögfesti Alþingi slíkt svæðisgjald í lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þá eru í sumum ríkjum innheimt sérstök framleiðslugjöld (t.d. Færeyjum).
Til viðbótar þessum gjöldum er litið svo á að leyfishafi greiði almennan fyrirtækjaskatt, en að auki eru í flestum nágrannaríkjum okkar innheimtir sérstakir olíuskattar á hagnað vegna olíuvinnslu (50% í Noregi). Á móti kemur að yfirleitt er heimilt að draga ýmsan kostnað, t.d. rannsóknarkostnað, frá skattstofni, auk hagstæðra reglna um afskriftir og uppsafnað tap.
Við gerð ofangreinds frumvarps fjármálaráðherra um skattlagningu olíuleitar og olíuvinnslu er það haft í huga að við slíka skattheimtu er mikilvægt að annars vegar sé tryggt að ásættanlegur arður af olíuvinnslu renni til íslenska ríkisins og hins vegar að samanlögð skattheimta vegna olíuleitar og vinnslu í íslenskri lögsögu verði ekki hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar til að tryggja að skattaumhverfið hérlendis sé fullkomlega samkeppnishæft samanborið við nágrannaþjóðir okkar. Jafnframt ber að hafa í huga að sértæk ívilnandi frávik frá almennri fyrirtækjaskattlagningu ber að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og fá samþykkt út frá ákvæðum EES samningsins um ríkisaðstoð. Fyrirhugað er að frumvarpið verði lagt fram á yfirstandandi vorþingi.