Þær fiska sem róa
Helga Katrín Tryggvadóttir, nemi í mannfræði við Háskóla Íslands vann rannsóknina, sem er hluti af BA-ritgerð hennar.
Markmið verkefnisins var að kanna fjölda þeirra kvenna sem sækja sjóinn á Íslandi, starfsaðstæður þeirra og upplifun þeirra af starfinu og viðhorfi samfélagsins til þess.
Helstu niðurstöðurnar voru þær að konur eru í miklum minnihluta sjómanna en þær ná því sjaldnast að vera yfir 10% þeirra. Ástæðu þess að konur sækja ekki sjóinn í meira mæli en þær gera er einna helst að finna í menningarbundnum þáttum, það er að segja, í skiptingu vinnunnar í karla- og kvennastörf og takmörkuðum vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við ímynd karlmennsku og kvenleika. Með þessari kynbundnu hugmyndafræði er ýtt undir þá trú að sjómennska sé ekki hentugur starfsvettvangur fyrir konur. Aðrir þættir, svo sem ábyrgð kvenna á heimili og börnum, koma þó einnig í veg fyrir þátttöku þeirra í sjómennsku, sem og minnkandi framboð á störfum á sjó.
Konur eru afar fámennar í yfirmannsstöðum á sjó, en verið getur að það endurspegli fremur litla hlutdeild þeirra í störfum á sjó heldur en að vera merki um að konur sem vinni á sjó eigi erfitt með að vinna sig upp í starfi. Konur dreifast nokkuð jafnt á allar gerðir skipa, en þær eru fjölmennastar á fiskiskipum.
Allar kvennanna sem tekin voru viðtöl við létu vel af því að vinna á sjó og engin þeirra áleit sig hafa liðið fyrir það að vera kona í því „karlastarfi“ sem sjómennskan er álitin vera. Reynsla kvenna af störfum á sjó er afar misjöfn, bæði eftir löndum og jafnvel eftir áhöfnum. Algengara virðist þó að hún sé jákvæð en neikvæð. Eins virðast konur finna fremur fyrir jákvæðum viðbrögðum en neikvæðum gagnvart vinnu sinni. Hversu erfitt þeim reynist að stunda sjómennsku með börn fer mikið eftir því hversu mikið maki og nánasta fjölskylda geta hlaupið undir bagga. Almennt séð fannst þeim fátt koma í veg fyrir að konur gætu ekki stundað sjóinn í meira mæli.
Aukin þátttaka kvenna í fiskveiðum hefur venjulega átt sér stað þegar þörf er á vinnuafli og tengist venjulega uppgangi í greininni. Sjóferðardögum kvenna fækkaði frá á áttunda áratugnum og til dagsins í dag, á sama tíma og veiðar hafa dregist saman. Endurnýjun vinnuafls innan sjómannastéttarinnar hefur ekki verið mikil á undanförnum árum og því er stéttin að eldast. Ungar konur sækja því ekki í miklum mæli inn í greinina fremur en ungir menn. Þar að auki virðast konur ekki vera hvattar til þess að fara á sjóinn í sama mæli og karlar. Hefðbundin þekking á sjómennsku sem gengið hefur mann fram að manni fer því frá föður til sonar, fremur en til dóttur.
Afar erfitt er að ætla sér að bæta stöðu kvenna sem stunda sjómennsku með öðrum hætti en þeim að bæta stöðu sjómanna sem heild og taka konur inn í myndina. Til þess að konur, jafnt og karlmenn, hafi áhuga á að stunda sjóinn þarf að vera eftirspurn eftir vinnuafli á sjó, atvinnutækifærin þurfa að vera eftirsóknarverð og launin þurfa að vera nógu góð til að fólk sé tilbúið til þess að eyða löngum stundum úti á rúmsjó. Ímynd sjómennskunnar, sem ef til vill hefur beðið hnekki á síðastliðnum árum, þyrfti einnig að bæta. Eins mætti vekja athygli þeirra á þeirri staðreynd að konur stundi sjóinn og hafi ávallt gert. Hafi konur einhverjar fyrirmyndir eykst ef til vill áhugi þeirra á þessum starfsvettvangi.
Það sem helst hindrar konur í að stunda sjóinn eru menningarbundnar hugmyndir um að karlmennska sé karlastarf og úr því þarf að bæta með því að stunda almenna jafnréttisbaráttu. Minnkuð kynjaskipting vinnumarkaðarins er mikilvægur þáttur í jafnréttisbaráttu kynjanna. Blandaður vinnumarkaður með jöfnum atvinnutækifærum minnkar valdamun milli kynjanna og sjómennska kvenna er eitt skref í þá átt. Aukin þátttaka kvenna á sjó getur einnig gegnt mikilvægu hlutverki í að varðveita byggðir landsins. Fjölbreyttir starfsmöguleikar kvenna á landsbyggðinni er stór þáttur í því að byggðir landsins geti blómstrað.
Skýrsla um hlutverk og stöðu sjókvenna á Íslandi (Word-300 kb)
BA-ritgerð: Þær fiska sem róa - Ímynd og staða sjókvenna á Íslandi (Word -152 kb)