Vinnumarkaður fyrir alla ræddur á ráðherrafundi Evrópusambandsins og EES
Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, situr nú fund vinnumálaráðherra aðildarríkja Evrópusambandsins og EES-samningsins sem haldinn er í Slóveníu.
Á ráðherrafundinum er fjallað um sveigjanlegan vinnumarkað og mikilvægi þess að tryggja þátttöku sem flestra á vinnumarkaði, svo sem ungs fólks, eldri borgara og fatlaðra. Jóhanna Sigurðardóttir lagði í ávarpi sínu áherslu á að eldri borgurum sé gert kleift að vinna óski þeir þess án þess að atvinnutekjur þeirra skerði lífeyri. Jafnframt lagði Jóhanna áherslu á að tryggja bæri jafnvægi milli opinbers stuðnings annars vegar og eflingu virkrar þátttöku þeirra sem standa veikar að vígi hins vegar. Mikilvægt væri að efla fjölbreytta starfsendurhæfingu þannig að hún nýttist fötluðum, ungum atvinnulausum og öðrum sem ekki hefðu fest rætur á vinnumarkaði af mismunandi ástæðum.
„Við eigum að leggja mun meiri áherslu á hvers kyns starfsendurhæfingu en við höfum gert til þessa. Margir hafa verið að vinna að uppbyggjandi verkefnum á því sviði sem hafa skilað miklum árangri og ég vil styrkja slík verkefni þannig ad við gerum fleirum kleift að vera virkir þátttakendur í samfélaginu“, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, í lok fundarins en ráðherra hefur setið tvo fundi með ráðherrum Evrópusambandsins og EES-ríkja, annars vegar um jafnréttismál og hins vegar um vinnumarkaðsmál.