Málþing um almenningssamgöngur á fimmtudag
Samgönguráð efnir til málþings um almenningssamgöngur fimmtudaginn 7. febrúar. Verður það haldið á Grand Hóteli í Reykjavík og hefst klukkan 15. Aðgangur er ókeypis.
Fyrirlesarar verða Páll Brynjarsson, sveitarstjóri Borgarbyggðar, Norðmaðurinn Gunnar Eiterjord, yfirmaður samgöngudeildar Rogalands, og Þjóðverjinn Manfred Bonz, fyrrverandi forstjóri almenningsvagnanna í Stuttgart. Vonast er eftir góðri þátttöku fulltrúa sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni en aðgangur er öllum heimill.
Páll Brynjarsson er formaður nefndar fulltrúa samgönguráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um almenningssamgöngur og mun hann greina frá helstu niðurstöðum í starfi nefndarinnar.
Gunnar Eiterjord mun í fyrirlestri sínum fjalla um almenningssamgöngur í Stavanger og nágrenni en þar hefur tekist að auka hlut almenningssamgangna.
Manfred Bonz kynnir almenningsvagnakerfið í Stuttgart sem í tíð hans fékk viðurkenningu sem besta almenningssamgöngukerfi heims. Manfred Bonz hefur oftsinnis komið til Íslands og mun hann einnig fjalla um möguleika á að auka þátt almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu.
Málþingið er öllum opið og eru væntanlegir þátttakendur beðnir að skrá sig með tilkynningu í tölvupósti á netfangið [email protected]. til hádegis á fimmtudag.