Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Tollafgreiðslugengi

Úr Vefriti fjármálaráðuneytisins 31. janúar 2008 - þú getur gerst áskrifandi að vefritinu.

Hinn 1. febrúar nk. taka gildi nýjar reglur um skráningu tollafgreiðslugengis, en tollafgreiðslugengi er notað til umreiknings tollverðs vöru í íslenskar krónur sé einhver hluti þess tilgreindur í erlendum gjaldmiðli.

Hingað til hefur ákvörðun tollverðs við tollafgreiðslu sendinga í sérhverjum almanaksmánuði verið byggð á tollafgreiðslugengi eins og það var ákveðið á 28. degi undanfarandi mánaðar. Miklar sveiflur geta orðið á gengi innan mánaðar og á milli mánaða.

Því samþykkti Alþingi í desember sl. breytingu á tollalögum þess efnis að toll- afgreiðslugengi verði frá og með 1. febrúar 2008 miðað við opinbert viðmiðunargengi Seðlabanka Íslands á hverjum virkum degi. Það þýðir að við tollafgreiðslu sendinga skal ákvörðun tollverðs byggð á opinberu viðmiðunargengi sem skráð var af Seðlabanka Íslands síðasta virkan dag á undan. Tollverð vöru sem er tollafgreidd á sunnudegi verður því ákvarðað á grundvelli gengis sem Seðlabankinn skráði sem opinbert viðmiðunargengi á föstudeginum á undan.

Gert er ráð fyrir að skráning vöruviðskipta okkar við útlönd verði réttari eftir breytinguna en nokkrar skekkjur hafa birst í heildarfjárhæðum innflutnings og útflutnings annað hvort til vanmats eða ofmats vegna gengissveiflna. Að auki er gert ráð fyrir að breytingin stuðli að jafnara álagi við tollafgreiðslu hjá tollstjórum.

Í dag er orðið afar sjaldgæft að tollverð vöru sé tilgreint í gjaldmiðlum sem Seðlabankinn tekur ekki til opinberrar skráningar en gert er ráð fyrir að tollafgreiðslugengi þeirra gjaldmiðla verði jafnframt ákvarðað af tollstjóranum í Reykjavík að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands á hverjum virkum degi í stað 28. hvers mánaðar.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta