Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Bætt réttarstaða leigutaka lóða undir frístundahús

Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um frístundabyggð. Með frumvarpinu er réttarstaða leigutaka lóða undir frístundahús bætt og meðal annars lagt til að þeir fái einhliða rétt til að framlengja leigusamning ef ekki semst um áframhaldandi leigu við landeiganda. Þetta er í fyrsta skipti sem lagt er fyrir Alþingi frumvarp um heildarlöggjöf um frístundabyggð.

Í dag er réttarstaða leigjenda yfirleitt sú að beri ákvæði leigusamnings ekki með sér að leigutaki hafi ótvíræðan rétt til leigu að leigutíma loknum er hann ofurseldur vilja landeiganda um framhaldið. Samfara vaxandi fjölda frístundahúsa hafa árekstrar landeiganda og leigutaka vegna þessa orðið sífellt algengari. Fjölmörg dæmi eru um að leigutakar í þessum aðstæðum hafi staðið frammi fyrir afarkostum landeiganda um að hækka leiguverð margfalt, kaupa lóðirnar langt yfir markaðsvirði ellegar hafa sig á brott með frístundahúsið, bótalaust. Frumvarpi félags- og tryggingamálaráðherra er meðal annars ætlað að bregðast við þessu ástandi, jafna samningsstöðu leigutaka og landeiganda og tryggja sátt um þá mikilvægu hagsmuni að friður skapist um áframhaldandi öfluga uppbyggingu frístundabyggða um allt land.

Einhliða réttur til að framlengja leigusamning

Veigamesta ákvæði frumvarpsins felst í því að leigutaka lóðar undir frístundahús er veittur einhliða réttur til að framlengja leigutíma um allt að 25 ár takist ekki frjálsir samningar um annað á milli aðila. Nýti leigutaki þennan rétt sinn gilda um það sérstök ákvæði sem miða að því að koma til móts við hagsmuni leigusala:

  • Heimild til að tvöfalda leigu frá eldri samningi.
  • Heimild til að minnka lóðina niður í allt að 0,5 hektara.
  • Heimild til innlausnar gegn fullri greiðslu komi til framsals lóðaréttinda til annarra en hans nánustu og eigi síðar en tíu árum eftir að framlengingu leigu er krafist.

Ágreiningi leigutaka og landeiganda um ofangreint er ávallt hægt að skjóta til sérstakrar kærunefndar frístundabyggðamála.

 

Önnur meginatriði frumvarpsins

Samandregið er annað efni frumvarpsins eftirfarandi:

  • Frumvarpið tekur til frístundahúsa á lóðum sem eru 2 hektarar eða smærri.
  • Lögbundið form og efni samnings um leigu á lóð undir frístundahús.
  • Félag í frístundbyggð verði vettvangur samskipta eigenda frístundahúsa.
  • Kærunefnd frístundabyggðamála sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningi leigutaka og eiganda lóðar og eigenda frístundahúsa innbyrðis.
  • Stefnuvísandi ákvæði um samráð sveitarstjórnar og félags í frístundabyggð.

 

Tenging frá vef ráðuneytisinsFrumvarp til laga um frístundabyggð

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta