Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2008 Dómsmálaráðuneytið

Sáttamiðlunarverkefni hjá lögreglustjórum um allt land

Tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum hefur nú verið innleitt hjá öllum lögreglustjóraembættum á landinu.
Mynd úr vefriti um sáttamiðlun
Mynd úr vefriti um sáttamiðlun.

Tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum hefur nú verið innleitt hjá öllum lögreglustjóraembættum á landinu. Í nýútkomnu vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins er fjallað ítarlega um verkefnið. Fram kemur að á þriðja tug mála hefur verið vísað til sáttamiðlunar frá því verkefnið hófst, flestum hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Þar af eru minniháttar líkamsárásarmál í meirihluta, en einnig er um að ræða mál vegna eignaspjalla, þjófnaða o.fl. Langflestir gerendur í þessum málum voru á aldrinum 15-18 ára. Sátt náðist í öllum málunum og voru málsaðilar almennt ánægðir með niðurstöðuna.

Til að mál geti farið í sáttamiðlun verður brot að vera smáfellt og/eða varða við ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um þjófnað, gripdeild, húsbrot, hótun, eignaspjöll, minniháttar líkamsárás, nytjastuld eða minniháttar brot gegn valdstjórninni. Ákærandi metur hvort mál séu tæk til slíkrar úrlausnar. Finni gerandi og þolandi lausn á málinu gera þeir með sér sáttasamning. Þegar samningurinn er efndur er málið fellt niður en fer að öðrum kosti sína hefðbundnu leið í réttarkerfinu.

Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra ákvað í maí 2006 að hrinda tilraunaverkefninu af stað til tveggja ára og þá um haustið hófst sáttamiðlun hjá lögreglustjóranum í Reykjavík, nú lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Í október og nóvember síðastliðnum hófst svo innleiðing sáttamiðlunar á landsbyggðinni. Eftirlitsnefnd með verkefninu hefur nú skilað stöðuskýrslu til ráðherra en metið verður við lok verkefnistímans hvort úrræðið verði varanlegur hluti refsivörslukerfisins.

Sjá nánar um sáttamiðlun hér og í  vefriti ráðuneytisins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta