Á ég að gæta bróður míns?
Ráðgjafarmiðstöðin Sjónarhóll stóð fyrir málþinginu „Á ég að gæta bróður míns?“ fimmtudaginn 7. febrúar síðastliðinn þar sem fjallað var um systkini barna með sérþarfir. Að Sjónarhóli standa ADHD samtökin, Landssamtökin Þroskahjálp, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra og Umhygga, félag til stuðnings langveikum börnum. Félags- og tryggingamálaráðherra ávarpaði málþingið og sagði þar meðal annars:
„Það er ljóst að aukinn fjöldi þeirra barna og unglinga sem fá greiningu á Greiningar- og ráðgjafarstöðinni kallar að einhverju leyti á aukna þjónustu sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur meðal annars átt viðræður við Reykjavíkurborg um þetta verkefni þar sem flest þeirra barna og unglinga sem þarfnast greiningar eru þaðan og hefur borgin brugðist við með viðeigandi hætti. Ég legg áherslu á mikilvægi þess að sveitarfélögin séu undir það búin að taka við þessum hópi þannig að þjónusta við hæfi geti komið til strax í framhaldi af greiningu.“