Nr. 2/2008 - Vel heppnað uppboð á minkaskinnum í Danmörku
Vel heppnað uppboð á minkaskinnum í Danmörku
Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri, voru í vikunni viðstaddir vel heppnað uppboð á minkaskinnum hjá uppboðshúsinu Kopenhagen Fur í Danmörku. Að venju voru boðnar til sölu margar gerðir skinna, meðal annars karakul lambaskinn, marðarskinn, refaskinn og að sjálfsögðu minkaskinn sem er langstærsti hlutinn. Að þessu sinni voru 3,4 milljónir minkaskinna boðnar upp, þar af tæplega tíu þúsund íslensk. Mjög gott verð fékkst fyrir skinnin, eða 261 dönsk króna að meðaltali, sem svarar til 3.393 ísl.kr. Þetta er um 30% hærra verð en á síðasta uppboði Kopenhagen Fur sem haldið var í desember síðastliðnum. Hækkunin kom mönnum ánægjulega á óvart en skýringarinnar er líklegast að leita í miklum kuldum í Rússlandi, Kína og á fleiri mikilvægum skinnamörkuðum. Af liðlega fimm hundruð kaupendum sem sóttu uppboðið komu um 300 frá Kína og Hong Kong. Verðið nú er yfir meðaltali síðasta árs og áratugar en nokkuð vantar þó upp á að það nái sömu hæðum og árið 2006. Meðalverðið þá var það hæsta í meira en tvo áratugi, eða frá árinu 1984.
Á fundi sem ráðherra átti með Torben Nielsen framkvæmdastjóra uppboðshússins kom fram að sú mikla aukning sem sögð hefur verið á skinnaframleiðslu Kínverja er orðum aukin. Því er minni ástæða til að óttast þá miklu samkeppni sem talin var yfirvofandi. Það, ásamt þessari góðu sölu núna, eykur mönnum bjartsýni á framtíðina enda mátti glöggt merkja að brúnin léttist á mörgum loðdýraræktandanum á uppboðinu.
Einar Einarsson, loðdýraræktarráðunautur Bændasamtaka Íslands, segir að afrakstur Íslendinga á uppboðinu gefi tilefni til að ætla að íslensku skinnin séu ívið betri en verið hafi, því meðalverð þeirra hafi verið heldur hærra en meðalverðið á uppboðinu.
Sigurgeir Þorgeirsson, Einar K Guðfinnsson og Torben Nielsen.
Hægt er að sjá fleiri myndir hér
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 8. febrúar 2008