Nýr forstöðumaður Þjóðmenningarhúss
Forsætisráðherra hefur veitt Guðríði Sigurðardóttur lausn frá embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhússins frá 1. maí nk. að eigin ósk. Þá hefur forsætisráðherra flutt Markús Örn Antonsson úr starfi sendiherra í Kanada með samþykki utanríkisráðuneytisins og skipað hann í embætti forstöðumanns Þjóðmenningarhúss frá og með 1. september nk., með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Guðrún Garðarsdóttir, skrifstofustjóri og staðgengill forstöðumanns, mun gegna starfi forstöðumanns til 1. september nk.
Markús Örn hefur starfað sem sendiherra Íslands í Kanada frá 1. september 2005. Hann á fjölbreyttan starfsferil að baki. Meðal starfa sem Markús Örn hefur gengt má nefna að hann var útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins 1985-1991 og svo aftur 1998-2005, borgarstjóri í Reykjavík 1991-1994, borgarfulltrúi í Reykjavík 1970-1985, ritstjóri tímaritsins Frjáls verzlun og fleiri tímarita hjá útgáfufélaginu Frjálst framtak hf. 1972-1983 og fréttamaður og dagskrárgerðarmaður við Sjónvarpið í árdaga þess. Markús Örn Antonsson er kvæntur Steinunni Ármannsdóttur fv. skólastjóra.
Reykjavík 13. febrúar 2008