Ráðherra fékk Grímuna
Ráðherra fékk Grímuna
Það var glatt á hjalla í fjárhúsunum á Fossi og Gaul í Staðarsveit á Snæfellsnesi á föstudag þegar Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veitti kindinni Grímu viðtöku. Hún er sú fyrsta sem fyrirtækið Eigið fé afhendir en því var formlega hleypt af stokkunum við þetta tækifæri. Hlédís Sveinsdóttir hugmyndasmiður þess og eigandi hyggst fá bændur víðs vegar um land til samstarfs og gefa fólki kost á að kaupa kind á fæti í fjárhúsum þeirra sem ganga til liðs við Eigið fé. Eigendurnir fá allar afurðir af skepnunni í sinn hlut, geta haft hönd í bagga með ræktuninni og komið og fylgst með framganginum í sveitinni á opnum dögum sem efnt verður til nokkrum sinnum á ári. Allar frekari upplýsingar eru á heimasíðunni kindur.is. Gríma ráðherra er svargolsótt.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið 18. febrúar 2008